Varað við töfum á umferð í kvöld

Aðfaranótt fimmtudags er stefnt á að malbika gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Gatnamótunum verður lokað og viðeigandi merkingar og hjáleiðir verða settar upp, að því er segir í tilkynningu en áætlað er að framkvæmdir hefjist klukkan 20 í kvöld og ljúki sex í fyrramálið.

Tekið verður tillit til forgangsaksturs lögreglu, sjúkrabíla og slökkviliðs og þeim hleypt fram hjá ef þörf er á.

Vegfarendur eru beðnir um að virða merkingar og hraðatakmarkanir og sýna aðgát við vinnusvæðin. Vinnusvæðin eru þröng og menn og tæki eru við vinnu mjög nálægt akstursbrautum, segir í tilkynningu frá þeim sem koma að verkinu.

mbl.is