Birgir neitar að koma með vörur

Miklar framkvæmdir standa yfir neðarlega á Hverfisgötu og verður hluti …
Miklar framkvæmdir standa yfir neðarlega á Hverfisgötu og verður hluti götunnar lokaður í sumar. Kaupmenn hafa lengi kvartað yfir erfiðu aðgengi í bænum vegna framkvæmda, götulokana og götuþrenginga. mbl.is/RAX

Ljóst er að kaupmenn í miðbænum hafa ekki farið varhluta af tíðum framkvæmdum þar og dæmi eru um að birgir hreinlega neiti að keyra vörur í verslun sökum erfiðs aðgengis. Anna Þóra Björnsdóttir, annar eigenda gleraugnaverslunarinnar Sjáðu við Hverfisgötu, segir í samtali við Morgunblaðið að hún sé ein þeirra sem fundið hafa fyrir framkvæmdum og götulokunum.

„Fyrirtækið sem keyrir til okkar vörur var að koma og segja okkur að í framtíðinni yrðum við að sækja hlutina sjálf. En ástæðan er sú að það kemst ekki með vörur hingað til okkar,“ segir hún.

Í gær hófst vinna við gatnamót Hverfisgötu og Ingólfsstrætis og er það hluti af endurnýjun Hverfisgötu sem unnið hefur verið að undanfarin ár. Vegna þessa verða gatnamótin lokuð fram til loka ágúst hið minnsta og verður umferð beint um hjáleiðir. Þá var einnig nýverið sú breyting gerð að Laugaveg skal aka upp að hluta í stað niður, eins og greint hefur verið frá.

Umræðuefnið við alla kúnna

Spurð hvort hún telji aðgengi að verslun sinni erfitt fyrir viðskiptavini svarar hún: „Já. Þetta er umræðuefnið við hvern einasta kúnna. Það eru allir að tala um hvað það er erfitt að komast í bæinn.“ Anna Þóra segist vel gera sér grein fyrir nauðsyn framkvæmda, en að skynsamlegra hefði verið að ráðast ekki í nýhafnar framkvæmdir á sama tíma og breytt akstursstefna gildir á Laugaveginum í bland við götulokanir og -þrengingar.

„Viðskiptavinurinn lítur þannig á að það taki því ekki lengur að koma, þetta sé orðið svo mikið vesen. En mér finnst eiginlega verst þegar birgjar eru farnir að segja okkur að sækja vörurnar sjálf vegna erfiðs aðgengis,“ bætir hún við.

Sindri Snær Jensson, einn eigenda Húrra Reykjavík við Hverfisgötu, segist ekki hafa fundið fyrir framkvæmdunum sem slíkum.

„Ég hef í raun ekkert út á þessar framkvæmdir að setja,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið.

Segist hann telja að viðskiptavinir muni áfram sækja þangað sem finna má vinsæl vörumerki og eftirsóttar vörur sem erfitt er að finna annars staðar. Sindri Snær segist hins vegar finna fyrir því þegar lokað er fyrir umferð eða bílastæði í námunda við verslanir. „Þá breytist einhvern veginn mynstrið,“ segir hann, en leggur áherslu á að sín tilfinning sé sú að kúnnar finni samt leiðir til að sækja verslanirnar heim.

Nóg af stæðum á Skúlagötu

Aðspurður segir Sindri Snær að kúnnar verslananna ferðist með mjög fjölbreyttum hætti. Margir þeirra komi á reiðhjólum, fótgangandi og með strætó. Stór hluti kemur þó með einkabílnum.

„Það er feikinóg af bílastæðum, til dæmis á Skúlagötu og nálægt Skuggahverfi og víðar,“ segir hann.

Bjarni Brynjólfsson er upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar. Hann segir framkvæmdirnar á Hverfisgötu enga stórframkvæmd.

„Þetta er svo sem ekki nein stórframkvæmd miðað við það sem áður hefur gengið á á Hverfisgötunni,“ segir Bjarni og bætir við að verkið verði unnið eins hratt og unnt er.

Þá segir hann alltaf svolítið erfitt þegar framkvæmdir standa yfir. „En á eftir verður þetta allt betra,“ bætir hann við.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »