Dæmdur fyrir að beita dóttur sína ofbeldi

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ófeigur

Karlmaður hefur verið dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að beita dóttur sína ofbeldi. Auk þess var manninum gert að greiða dóttur sinni 400.000 krónur í miskabætur.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa veist með ofbeldi að 18 ára dóttur sinni í júlí fyrir þremur árum, kýlt hana í andlitið, rifið í hár hennar og ýtt henni í gólf og upp að vegg. Afleiðingarnar voru þær að dóttirin nefbrotnaði, hlaut bólgu yfir hægra kinnbeini og hreyfieymsli aftur yfir kjálkaliðinn.

Fram kemur í dómi að upphaf málsins megi rekja til 10. september 2016. Þá var lögregla kölluð að heimili vinkonu dótturinnar en hún hafði fengið að dvelja í nokkra daga hjá vinkonunni. Dóttirin var í miklu uppnámi, óttaðist bróður sinn, og lýsti „grófu ofbeldi af hálfu fjölskyldu sinnar“.

Dóttirin lýsti því hvernig hún og systkini hennar hefðu verið beitt ofbeldi frá unga aldri. Einnig kom þá fram að í júlí sama ár hefði faðir hennar ráðist harkalega á hana með fyrrgreindum afleiðingum.

Faðirinn neitaði sök í málinu. Hann sagði að oft hefði verið rifist á heimilinu og það hefði verið mikill hávaði. Hann kannaðist við að dóttirin hefði flutt af heimili sínu í júlí 2016 ásamt móður sinni og sagði ástæðuna vera rifrildi við hann. Hann sagðist telja líklegast að áverkarnir á dóttur hans hefðu komið til vegna áfengisneyslu hennar.

Niðurstaða dómsins er sú að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hafi veist að dóttur sinni og kýlt hana í andlitið með þeim afleiðingum að hún nefbrotnaði, bólgnaði yfir hægra kinnbeini og fékk hreyfieymsli aftur yfir kjálkaliðinn. Maðurinn er því dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu miskabóta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert