Fær 9,9 milljónir í skaðabætur

Magnús Kristinsson útgerðarmaður fór í mál við endurskoðunarfyrirtækið Deloitte vegna …
Magnús Kristinsson útgerðarmaður fór í mál við endurskoðunarfyrirtækið Deloitte vegna álags sem hann þurfti að greiða vegna vantalinna fjármagnstekna. mbl.is/RAX

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt Deloitte og Vátryggingafélag Íslands til þess að greiða útgerðar- og athafnamanninum Magnúsi Kristinssyni tæpar 9,9 milljónir króna í skaðabætur, vegna mistaka sem Deloitte gerði við vinnslu skattframtala Magnúsar fyrir tekjuárin 2007 og 2009. Dómur í málinu var kveðin upp 13. júní síðastliðinn.

Magnús sætti rannsókn skattayfirvalda vegna vantalinna fjármagnstekna á þessum tveimur tekjuárum og þurfti á endanum að greiða rúmar 19,7 milljónir króna í fjármagnstekjuskatt af því 25% álagi sem lagt var á vantaldar fjármagnstekjur hans. Hann fór fram á að fá það tjón bætt, þar sem hann hefði falið sérfræðingum Deloitte að sjá um sín mál gegn háu gjaldi og svo orðið fyrir stórfelldum fjárútlátum vegna mistaka þeirra.

Í málinu greindi Magnúsi og Deloitte meðal annars á um það hvort Magnús hefði látið endurskoðunarfyrirtækið fá öll gögn sem vörðuðu viðskipti hans, annars vegar vegna fjármagnstekna vegna afleiðusamninga á tekjuárinu 2007 og svo vegna sölu stefnanda á hlutum í Bergi-Hugin ehf. til Landsbanka Íslands árið 2009.

Aðilar deila sök á tjóninu

Í niðurstöðukafla dómsins kemur meðal annars fram að meta verði Deloitte það til „stórfellds gáleysis“ að hafa ekki óskað sérstaklega eftir upplýsingum um afleiðusamninga Magnúsar á tekjuárinu 2007, þar sem árið áður höfðu tekjur hans af slíkum samningum verið 107 milljónir króna. Þá var einnig talið að telja þyrfti Deloitte það til gáleysis að hafa ekki gengið úr skugga um söluna á Bergi-Hugin árið 2009.

Deloitte þarf að greiða Magnúsi 9,9 milljónir króna vegna málsins.
Deloitte þarf að greiða Magnúsi 9,9 milljónir króna vegna málsins. mbl.is/RAX

Magnús var þó einnig látinn bera helming sakar af þeim mistökum sem voru gerð við gerð skattframtalsins og segir í niðurstöðu dómsins að þar sem hann hefði verið í viðskiptum og höndlað með háar fjárhæðir um árabil verði að telja honum það gáleysis að hundruð milljóna hafi vantað inn á skattframtöl hans.

Hann ber því helming þess 19,7 milljóna króna tjóns sem hann taldi Deloitte bera ábyrgð á, auk þess sem dómnum þótti rétt að hver málsaðila myndi bera sinn lögfræðikostnað vegna málsins.

Vátryggingafélagi Íslands var stefnt í málinu þar sem Deloitte er með starfsábyrgðartryggingu hjá VÍS. Tryggingafélagið hefur neitað bótaskyldu.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness

mbl.is