Flestir sóttu um í Verzló

678 nemendur af þeim 4.077 sem luku grunnskóla í vor …
678 nemendur af þeim 4.077 sem luku grunnskóla í vor óskuðu eftir skólavist í Verzló sem fyrsta eða annað val. mbl.is/Árni Sæberg

Flestir nemenda sem luku við grunnskóla í vor sóttu um skólavist í Verzlunarskóla Íslands, en alls sóttu rúm 95% nemenda sem luku grunnskóla í vor um skólavist í framhaldsskóla.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Menntamálastofnun en innritun nýnema í framhaldsskóla er nýlokið.       

Alls sóttu 4.077 nemendur um skólavist í framhaldsskóla haustið 2019, eða rúm 95% nemenda sem luku grunnskóla í vor. Umsóknarfrestur var til 7. júní. Líkt og undanfarin ár gafst nemendum kostur á að sækja um tvo skóla. Verzlunarskóla Íslands, Menntaskólanum við Sund og Tækniskólanum bárust flestar umsóknir sem fyrsta val.

Verzlunarskólinn var vinsælastur sem fyrsta val, en 518 nemendur settu hann efstan á lista. 305 völdu Menntaskólann við Sund sem fyrsta val. Flestar umsóknir bárust jafnfram í Verzlunarskólann en alls sóttu 678 um skólavist í skólanum sem fyrsta eða annað val.

Skólarnir raða umsóknum eftir einkunnum og alls fengu 165 nemendur ekki skólavist í þeim skólum sem þeir höfðu óskað eftir í fyrsta eða annað val, eða rúm 4% allra umsækjenda.

Frá því umsóknarfresti lauk hefur Menntamálastofnun unnið að því að finna þeim nemendum skólavist í þriðja skóla og hefur sú vinna gengið vel að því er fram kemur í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert