Helga landaði laxi með glæsibrag

Reykvíkingur ársins 2019 er Helga Steffensen, sem hefur skemmt yngstu kynslóðinni í 40 ár með Brúðubílnum, og hún fékk því fyrst allra að renna fyrir lax í Elliðaánum í morgun. Þrátt fyrir hæga byrjun á laxveiðisumrinu átti hún ekki í vandræðum með að krækja í fisk.

Í myndskeiðinu má sjá Helgu landa myndarlegum sjö punda laxi.

Hún segist vera stolt af titlinum og viðurkenningunni. „Ég er svo mikill Reykvíkingur, ég hef alltaf búið hér og þetta er borgin mín,“ sagði hún eftir að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri veitti henni titilinn. 

Frá árinu 1980 hefur hún farið um borgina með Lilla og félaga í Brúðubílnum og skemmt yngstu kynslóðinni. Hún hefur einnig hlotið fálkaorðuna fyrir framlag sitt til leiklistar hér á landi. Þetta er í níunda skipti sem Reykvíkingur ársins er útnefndur en það var Jón Gnarr, þáverandi borgarstjóri, sem átti frumkvæði að því að veita nafnbótina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert