Samþykktu að afturkalla umboðið

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Hari

Fulltrúaráð VR samþykkti á fundi sínum í kvöld að afturkalla umboð þeirra fjögurra stjórnarmanna sem félagið skipar í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og tilnefna nýja í þeirra stað. VR hefur birt tilkynningu á vef sínum þessa efnis.

Stjórn VR samþykkti á fundi sínum á þriðjudag að boða til fundar í fulltrúaráðinu, sem telur 25 manns, og bera þessa tillögu upp. Fundurinn hófst kl. 18 og liggur niðurstaðan nú fyrir, en fjórir nýir stjórnarmenn verða skipaðir í stjórn lífeyrissjóðsins sem að munu „taka mið af veg­ferð verka­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar og mark­miðum lífs­kjara­samn­ings­ins“, samkvæmt því sem Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR sagði í samtali við mbl.is í gær.

Eins og fram hefur komið er ástæða þess að VR kaus að grípa til þessara aðgerða sú að þann 24. maí síðastliðinn hækkaði Lífeyrissjóður verzlunarmanna breyti­lega vexti verðtryggðra sjóðfé­lagalána úr 2,06% upp í 2,26%, en tveim­ur dög­um fyrr hafði Seðlabanki Íslands lækkað stýri vexti um hálft pró­sentu­stig.

Samkvæmt tilkynningu á vef VR var tillagan samþykkt með 20 atkvæðum þeirra 24 sem að sátu fundinn og hið sama átti við um tillögu um skipan nýrra stjórnarmanna í stjórn lífeyrissjóðsins, aðal- og varamanna, en þeir eru:

Aðalmenn 
Bjarni Þór Sigurðsson
Guðríður Svana Bjarnadóttir
Helga Ingólfsdóttir
Stefán Sveinbjörnsson

Varamenn
Björn Kristjánsson
Oddur Gunnar Jónsson
Selma Árnadóttir
Sigríður Lovísa Jónsdóttir

mbl.is

Bloggað um fréttina