„Við viljum verja velferðina“

Þingflokkur Samfylkingarinnar kynnti tillögur sínar í morgun. Ágúst Ólafur Ágústsson, …
Þingflokkur Samfylkingarinnar kynnti tillögur sínar í morgun. Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir flokkinn vilja verja velferðina með tillögum sínum. mbl.is/​Hari

„Við viljum verja velferðina og fjárfesta í framtíðinni, en ríkisstjórnarflokkarnir eru að gera hvorugt,“ segir Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar í samtali við mbl.is um breytingartillögur flokksins við fjármálaáætlun 2020 til 2024 sem nú er til umræðu á Alþingi.

„Ríkisstjórnin er með sínum tillögum búin að ákveða það að stærstu höggin í samdrættinum eigi að lenda á öryrkjum, skólum, nýsköpun, sjúkrahúsum og slíkum þáttum. Við viljum verja þessa þætti með því að afla tekna með ábyrgum hætti, við viljum ekki hækka skatta á venjulegt fólk eða venjuleg fyrirtæki,“ segir þingmaðurinn.

Ágúst Ólafur segir tillögur Samfylkingarinnar að fullu fjármagnaðar og að málið snúi að forgangsröðun.

„Okkur finnst fáránlegt að veiðileyfagjaldið sé að nálgast tóbaksgjaldi í upphæðum. Okkur finnst mjög sérkennilegt að fjármagnstekjuskattur sé langlægstur á Íslandi af öllum Norðurlöndunum. Okkur finnst sérkennilegt að lækkun bankaskatts sé forgangsmál í svona árferði og við viljum innleiða hér tekjutengdan auðlegðarskatt.“

Ekki áhyggjur af áhrif skattahækkananna

Spurður hvort hann hafi áhyggjur af því að hækkun skatta eins og veiðileyfagjald og kolefnisgjald geti haft neikvæð áhrif á rekstur fyrirtækja svarar þingmaðurinn að hann hafi ekki miklar áhyggjur af því.

„Ég held að það sé pólitískur vilji hér að innleiða hér öflugri mengunarskatta,“ segir Ágúst Ólafur og bendir á að mengun sé dýr fyrir samfélagið en ódýr fyrir þann sem mengar. „Hækkun kolefnisskatts er vel hentugt til þess að berjast gegn hamfarahlýnun og þetta eru ríkisstjórnir út um allan heim að gera.“

„Veiðileyfagjöldin eru orðin allt of lág miðað við að þau veita aðgang að einum gjöfulustu fiskimiðum jarða. Það að það sé forgangsmál þessarar ríkisstjórnar að lækka það um þrjá milljarða er mjög sérkennilegt,“ segir Þingmaðurinn.

mbl.is