Átti símtöl heilu næturnar um mannanöfn

Dr. Guðrún Kvaran í vor. Hún hefur marga fjöruna sopið …
Dr. Guðrún Kvaran í vor. Hún hefur marga fjöruna sopið í mannanafnamálum og setið tvisvar í mannanafnanefnd. Hún fagnar því að frumvarpið hafi verið fellt á þinginu. mbl.is/​Hari

„Ég sjálf hef átt löng og undarleg símtöl, oft heilu næturnar, við fólk sem var greinilega undir áhrifum áfengis eða eiturlyfja og var að ræða við mig hvort væri hægt að hafa hitt og þetta sem nafn á barnið. Það var alveg furðulegt sem fólki datt í hug að fara að klína á blessað barnið sitt. Samkvæmt þessu frumvarpi hefði þetta verið allt í lagi og ekki þyrfti að spyrja kóng eða prest,“ segir Guðrún Kvaran, málfræðingur, prófessor emeritus og fyrrverandi nefndarmaður í mannanafnanefnd.

Hún segir hvort tveggja mannanafnanefnd og mannanafnalög nauðsynleg fyrirbæri, þó vissra breytinga þurfi við. Hún fagnar því að frumvarpið, sem boðaði róttækar breytingar á lögum um mannanöfn, hafi fallið á þinginu.

„Mér finnst nefndin mjög nauðsynleg og mér finnst andstyggilegt hvernig fjölmiðlamenn hafa talað mannanafnanefnd niður og haft þannig áhrif á almenning, eins og hún sé af hinu illa,“ segir Guðrún, sem sjálf sat í mannanafnanefnd tvö tímabil og er einn helsti sérfræðingur Íslendinga í mannanöfnum. Hún ritaði meðal annars Nöfn Íslendinga, grundvallarrit í íslenskri nafnfræði. Nú er hún sitjandi formaður íslenskrar málnefndar.

Hún kveðst þekkja alla sem setið hafa í mannanafnanefnd. „Þetta er afskaplega vandað fólk sem reynir að fara að lögum eins og mögulega er hægt og á ekki skilið þessa umfjöllun sem þeir hafa fengið,“ segir Guðrún. Hún vísar þar til neikvæðrar umræðu um nefndina og ofureinfaldana á störfum nefndarinnar, þar sem nöfn eru birt sem hafa ýmist verið hafnað eða þau leyfð, en lítið fjallað um rökstuðninginn sem liggur að baki.

Della að málið snúist ekki um málvernd

Guðrún segist fagna niðurstöðu þingsins, að hafna frumvarpinu. „Ég geri það en ég hefði nú viljað sjá að þessu væri vísað til sérfróðra manna. Það þarf að laga mannanafnalögin, endurskoða þau. Í minni umsögn benti ég á að fela þyrfti nefnd sérfræðinga að fara yfir núgildandi og laga þau skynsamlega að breyttum tímum,“ segir hún.

Núgildandi lög eru frá árinu 1996 en þar á undan höfðu ný lög verið samþykkt 1991. „Tímarnir hafa náttúrulega breyst síðan þessi lög voru samþykkt. Þau eru nokkurra áratuga gömul orðin. En þá þarf líka að hafa í huga varðveislu íslenskrar tungu, eins og forsætisráðherra bendir á,“ segir Guðrún.

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, sagði engin rök hafa verið færð fyrir því að aukið frelsi í mannanafnalöggjöf hefði neikvæð áhrif á íslenskuna. „Það er náttúrulega della,“ segir Guðrún um þá fullyrðingu.

„Við höfum nú einu sinni tungumál hér, sem er beygingarmál. Ef nöfn færu að fara á skjön við kerfið í heild myndi fara svolítið að hrikta í stoðunum, tel ég,“ segir Guðrún. Og útskýrir: „Auðvitað eru nöfn hluti af tungumálinu, alveg eins og borð og stóll. Nöfn hafa beygst alveg frá því að menn settust að hér á landi. Við höfum tekið upp erlend nöfn en þau hafa þá lagað sig að beygingarkerfinu,“ segir Guðrún.

„Nöfn eru ekki fyrirbæri eins og stendur í frumvarpinu, heldur eru þau hluti orðaforðans,“ segir hún.

Fer flest í gegnum nefndina

Guðrún segir annars langflest nöfn fara í gegn hjá nefndinni, sem koma á borð hennar. „Þegar lögin voru rýmkuð fyrir aldamót gilti þaðan af að nafnið þyrfti að vera ritað með íslenskum stöfum og taka íslenskum beygingarendingum,“ segir Guðrún. Þessi tvö viðmið séu nú þau helstu.

„Því fer nú flestallt í gegn, nema ýmis undarlegur ritháttur eða erlend nöfn,“ segir Guðrún. Litlu sé hafnað af nefndinni. „Ég segi ekki að mér þyki öll nöfn falleg sem fara í gegn, en þau falla að rithætti íslensku og beygingarkerfinu og þá fara þau í gegn,“ segir hún.

Í frumvarpinu átti hins vegar að sögn Guðrúnar að leyfa að taka upp í rauninni hvað sem er, meira að segja tákn, stafi og slíkt. „Það stóð nú ekki að það mætti setja broskall en það lá við,“ segir Guðrún.

Satanía og Lúsífer

Guðrún sat í mannanafnanefnd tvö tímabil. Hún útskýrir að listi þeirra nafna, sem nefndin hefur hafnað á þeim grundvelli að þau kynnu að vera nafnbera til ama, gæti verið mun lengri, ef ekki væri fyrir öll þau skipti sem nefndin hefur ráðið foreldrum frá því að nota viss nöfn, á frumstigi hugmyndarinnar. Þannig hafi margir ekki hugsað hugsunina til enda en áttað sig þegar nefndin benti þeim kurteisislega á að æskilegra væri að velja annað nafn en stóð til. Nöfnin sem fara þessa leið, það er, fara aldrei eiginlega fyrir mannanafnanefnd, eru ekki skráð. Á grundvelli þessa, meðal annars, vísar Guðrún því á bug sem segir í frumvarpinu að hennar sögn, að aðeins „örfá nöfn“ geti orðið fólki til ama.

„Ég man eftir nöfnunum bæði Satanía og Lúsífer. Það er náttúrulega ekki gaman að koma til útlanda og segja: „Ég heiti Lúsífer Jónsson.“ Og auðvitað ekki heldur hérna heima. Þetta yrði viðkomandi til ama,“ segir Guðrún.

Í greinargerð frumvarpsins segir þá: „Dæmi eru um að nöfnum hafi verið hafnað þótt þau eigi sér langa sögu í íslensku samfélagi og tungu og hafi jafnvel tíðkast innan sömu fjölskyldu í margar kynslóðir.“

Guðrún hafnar þessu jafnframt. „Ég var nú í mannanafnanefnd í tvígang og ég minnist þess ekki að nafni hafi verið hafnað sem hafi gengið í fjölskyldum í áratugi. Það er orðið mjög auðvelt að fara inn í manntölin og sjá hvort nöfnin hafi verið notuð,“ segir Guðrún. Þegar vafi hafi leikið á hafi nefndin leitað til Þjóðskrár og fengið skorið úr um hvort það hafi verið notað áður eða ekki.

Lög sem mætti sníða af vankanta

„Lögin núna eru ekki ólög og það er hægt að fara eftir þeim. Það mætti þó sníða af þeim ýmsa vankanta sem hafa orðið til breytingar í þjóðfélaginu,“ segir Guðrún. Gott sé að frumvarpinu hafi verið hafnað í þeirri mynd sem það var, þar sem átti að gefa verulega eftir í lögum um mannanöfn, meðal annars þannig að foreldrum væri leyft að gefa börnum eins mörg nöfn og þeir vildu.

„Það er ekki hægt að gera þetta, nema að breyta öllu kerfinu. Það benti Þjóðskrá á í sinni umsögn, sem var góð. Ef þetta á að vera óendanlega langt sérðu hvar þetta endar,“ segir Guðrún og bendir á að hjá bönkum og í Þjóðskrá sé aðeins til að dreifa ákveðið mörgum stafabilum í nöfnum manna og fyrirtækja.

Eðlilegt að Elín fái ekki að heita Kona

Aðspurð segir Guðrún að úrskurðir mannanafnanefndar í máli Elínar Eddudóttur, sem hefur talað við fjölmiðla um þá ósk sína að heita Kona að millinafni, séu eðlilegir.

„Hún segir að það sé ekki nokkur munur á að heita Kona eða Karl. En það er grundvallarmunur. Karl er tökunafn: það er notað í Bretlandi sem Charles, Karl á þýsku og í Norðurlandamálum. Þetta er upphaflega latneska nafnið Carolus. Þetta er í hugum manna ekki par eins og karl og kona,“ segir Guðrún.

„Hún nefndi líka Sveinn, að það sé leyft að heita Sveinn en ekki Kona. Það er alveg eins: Sveinn er tökunafn af Sven úr skandinavísku. Þetta er ekki sambærilegt. Það er enginn sem heitir, svo ég viti til, kvinde á dönsku. Eða woman á ensku,“ segir Guðrún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert