Báru þungbært að sjá Ágúst Ólaf ítrekað

Bára Huld Beck blaðamaður segir þungbært að horfa upp á …
Bára Huld Beck blaðamaður segir þungbært að horfa upp á Ágúst Ólaf Ágústsson þingmann Samfylkingarinnar ítrekað í fjölmiðlum. Ljósmynd/Birgir Þór

„Í þessari viku hef ég þurft að taka á stóra mínum til að halda andliti og hef ég þurft að minna mig á að ég er fín eins og ég er og skilgreinist ekki af því sem maðurinn gerði mér,“ segir Bára Huld Beck blaðamaður í færslu sem hún skrifar á Facebook í dag. Ár er liðið síðan Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaður Samfylkingarinnar áreitti hana kynferðislega. 

Bára talar í færslunni um að minningarnar af áreitinu hafi reynst henni sérstaklega þungbærar síðustu daga og vikur, þar sem Ágúst Ólafur hefur verið í brennidepli í fjölmiðlum. 

„Ég get ekki flúið. Ég er blaðamaður. Ég get ekki hætt að horfa. Ég get ekki slökkt á sjónvarpinu, hætt að skoða Facebook eða lesa blöðin. Ef ég ætti að hætta þessu öllu til að flýja vondar tilfinningar þá yrði ég að hætta að vera blaðamaður. Ég þyrfti að hætta í starfinu sem ég elska,“ skrifar Bára. 

Hún lýsir því hvernig hún hafi séð „manninn“, sem hún nafngreinir ekki sjálf í þessari færslu, hvað eftir annað á ýmsum vettvangi. „Í pontu Alþingis, í fjölmiðlum og á Facebook.“ Það hafi reynst henni „einstaklega erfitt.“

Bára, sem á afmæli á morgun, segist ekki ætla að láta þetta eyðileggja afmælisdaginn, þrátt fyrir bakslagið sem hún hefur upplifað í vikunni. „ Í þessari viku græt ég pínu og sé eftir týndum tíma vegna hegðunar sem ég átti ekki skilið, sem enginn á skilið. En á morgun brosi ég fullt og ber höfðuð hátt í mínum nýja veruleika,“ skrifar hún.

Ágúst Ólafur viðurkenndi sjálfur á sínum tíma að hafa reynt að kyssa Báru Huld Beck án þess að hún hefði áhuga á því. Hann fór í kjölfar málsins í leyfi frá þingstörfum í desember, sem varði fram yfir áramót. Svo snéri hann aftur á þing og hefur verið áberandi í fjölmiðlum undanfarið, ekki síst í umræðum um breytta fjármálastefnu.

Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaður gekkst við því á sínum tíma …
Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaður gekkst við því á sínum tíma að hafa áreitt Báru kynferðislega. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is