„Endurhæfing fullreynd“

Börn fædd árið 2007 eru fyrsta snjalltækjakynslóðin hér á landi.
Börn fædd árið 2007 eru fyrsta snjalltækjakynslóðin hér á landi. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Dæmi eru um að börn séu á biðlista eftir greiningu hjá Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins sem ættu með réttu ekki að vera þar ef þau fengju fullnægjandi þjónustu um leið og á þyrfti að halda. Þetta er meðal þess sem kemur fram í endurskoðun sem unnið er að á vegum hins opinbera á allri þjónustu við börn. 

Mikill fjölgi fólks tók þátt í vinnufundi þingmannanefndar í málefnum barna sem haldinn var í gærmorgun en til hans boðuðu Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. 

Umfangsmikil vinna við endurskoðun á allri þjónustu við börn hefur staðið yfir í vetur. Tilgangur fundarins var að gera þessa vinnu upp og ræða næstu skref. Vinnan hefur farið fram í samvinnu þvert á ráðuneyti og við þverpólitíska þingmannanefnd í málefnum barna sem er skipuð fulltrúum allra þingflokka.

Eitt af því sem þar kom fram er að ekki er boðlegt að festa stimpilinn „endurhæfing fullreynd“ á ungmenni sem því miður er raunin í dag, að því er fram kom á fundinum. 

Fjöldi fólks tók þátt í vinnufundi um málefni barna í …
Fjöldi fólks tók þátt í vinnufundi um málefni barna í gær.

Auk þess hafa yfir hundrað einstaklingar verið virkir þátttakendur í hliðarhópum þingmannanefndarinnar. Er þar um að ræða sérfræðinga, fulltrúa stofnana, sveitarfélaga, hjálparsamtaka og notenda kerfisins en með þátttöku þeirra hefur skapast dýrmætur samráðs- og samstarfsvettvangur um málefni barna.

Hliðarhóparnir hafa fjallað um forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir, samtal þjónustukerfa, skipulag og skilvirkni úrræða og börn í sérstaklega viðkvæmri stöðu svo dæmi séu nefnd. Á fundinum voru samantektir hliðarhópanna ræddar og farið yfir helstu áskoranir og verkefni sem þarf að ráðast í þegar kemur að endurskoðun á þjónustu við börn.

Meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum hliðarhópanna er að einfalda þurfi kerfið sem snýr að börnum og mikilvægt sé að skoða uppstokkun þess og sameiningar stofnana. Til eru of margar sérfræðistofnanir sem eru í raun að „klippa“ börn í of marga búta. Meðal þess sem rætt var er að ákveðin vandamál má rekja til þess að hluti þjónustunnar sé hjá ríkinu en annað hjá sveitarfélögunum. Ekki alltaf ljóst hvar mörkin eigi að liggja.

Bent er á að greining á vanda er ekki úrræði og fyrst og fremst eigi að bregðast við þörfum barnsins þar sem það er. Greining geti hins vegar opnað dyr inn í viðeigandi úrræði. Alls of mörg börn séu á svo nefndri þriðja stigs þjónustu. Það er þar sem börnum með alvarlegan vanda er sinnt, svo sem á Greiningar- og ráðgjafarmiðstöð (GRR) og Barna og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL). 

Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Ásmundur Einar Daðason tóku þátt í …
Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Ásmundur Einar Daðason tóku þátt í fundinum.

Biðlistarnir eru birtingarmynd þess að það er einhver vandi í kerfinu sem ræðst illa við. Gjarnan eru þetta börn sem eru ekki fötluð en eiga við mikinn vanda að stríða sem hægt er að koma í veg fyrir ef þau eru gripin nægilega snemma. Efla þurfi fyrsta stigs þjónustu en öll börn teljast til þess stigs. Almenna kerfið eigi að annast skimun eftir vanda og mögulega sinna vægum vanda með þverfaglegri aðkomu sérfræðinga – t.d. innan skóla, félagsþjónustu eða heilsugæslu. En til þess að efla  fyrsta þjónustustigið þarf mannafla og það þarf fjármagn.

„Við erum kerfið sem þarf að tala saman“

Ásmundur Einar segir að því fyrr sem brugðist er við vanda barna því mun meiri líkur eru á að það skili árangri. Hann segir að vitað sé að kerfin eru ekki að tala nægjanlega vel saman og þar eru grá svæði að finna innan stjórnsýslunnar. 

Hann segir að margir telji að það sem vanti sé meira fjármagn og vissulega sé rétt að það vanti aukið fjármagn en það sé ekki nóg, það þurfi ákveðnar kerfisbreytingar svo hægt sé að bregðast við fyrr og fjármagnið sé að nýtast sem best. 

Barnamálaráðherra segir mikilvægt að horfa út fyrir boxið og hlusta á hvað aðrir hafa að segja. Að hugsa hlutina upp á nýtt og á annan hátt en hingað til hefur verið gert. Við þurfum að hlusta á það sem aðrir hafa að segja og ekki bara það sem maður telur sjálfur rétt. „Við erum kerfið sem þarf að tala saman um næstu skref í þessari vinnu,“ sagði Ásmundur Einar þegar hann ávarpaði fundargesti í gær. 

Eitt af því sem rætt var um í hliðarhópum er að skilgreina þurfi betur ábyrgð ýmissa aðila í skólakerfinu. Gjarnan myndist gjá á milli leikskóla og skóla og það sé eins og allar upplýsingar hverfi. Það þyrfti að vera einhver málsstjóri sem héldi utan um að allar upplýsingar um þarfir barnsins og fjölskyldunnar færu á milli skólastiga.

Ljóst sé að efla þurfi menntakerfið sem þjónustumiðað úrræði - það þarf að styðja skólann í að horfa á alls konar þjónustu og taka inn fleiri fagstéttir. Einnig væri hægt að hafa t.d. þverfaglegt teymi sem aðstoðar skólana.

AFP

„Samvinna og traust munu skipta sköpum þegar kemur að því að bæta alla umgjörð í kringum málefni barna og ungs fólks á Íslandi. Heildstæð stefna í málefnum ungs fólks er mikilvæg og endurskoðun á æskulýðslögum er á dagskrá. Ég vænti mikils af þátttöku ungs fólks í þeirri vinnu. Við viljum framúrskarandi menntakerfi og því er brýnt að allir lykilaðilar starfi saman og setji velferð barna í forgang öllum stundum,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, á fundinum.

Mikil endurnýjun nauðsynleg

Hún segir að með því að brjóta niður múra sé hægt að gera ótrúlega hluti og að sögn Lilju er mikil kennaraþörf. Þegar hún hafi tekið við starfi ráðherra hafi blasað við mikill skortur á kennurum eftir nokkur ár. Ef við fáum ekki öfluga endurnýjun þá verðum við ekki með framúrskarandi menntakerfi. Það þarf að styrkja alla umgjörð í kringum kennarana,“ segir Lilja.

Með því að fá alla að borðinu við að móta tillögur um hvernig hægt sé að bæta þetta hafi útkoman verið ótrúleg. Mikil aukning er í umsóknum um kennaranám fyrir næsta haust og í stað þess að það væri verið að útskrifa á bilinu 80-90 kennara á ári. Nú bendi færnispáin til þess að þetta geti verið um 270 kennarar á ári, segir Lilja.

Að sögn Lilju Daggar mun hún næsta haust leggja fram tillögur að breytingum á æskulýðslögum og segir hún að samtal líkt og það sem á sér stað nú í málefnum barna sé að skila miklu inn í þá vinnu.

Miklar breytingar hafi átt sér stað hvað varðar upplýsingaöflun á undanförnum árum. Við nálgumst þessar upplýsingar á allt annan hátt en börnin okkar. Þannig til þess að það verði ekki rosalegt kynslóðabil á milli unga fólksins og okkar [...] þurfum við öll að vinna að þessu saman,“ segir Lilja en eitt af því sem mikil áhersla er lögð á er íslenskt mál. „Við sjáum fram á það að börnin sem eru fædd árið 2007 er fyrsta kynslóðin sem er alin upp við snjalltæki. Það er munur á máltöku og málþroska þessara barna og þeirra sem eru fædd árið 1997. Þannið að það er algjör okkar allra að takast á við þessar samfélagsbreytingar,“ segir menntamálaráðherra. 

Vilhjálmur Árnason, Svandís Svavarsdóttir og Ásmundur Einar Daðason á fundinum …
Vilhjálmur Árnason, Svandís Svavarsdóttir og Ásmundur Einar Daðason á fundinum í gær.

„Þessi vinna markar mikil tímamót. Við erum að fella niður múra á milli ráðuneyta, sveitarfélaga og stofnana og ég trúi því að með því sköpum við jarðveg til samvinnu á milli kerfa sem lengi hefur verið kallað eftir. Ég vil enda á að gera orð Ásmundar Einars að mínum í anda dagsins: Þegar fólk fer að tala saman þá losnar bæði orka og fjármagn til hagsbóta fyrir börnin,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, á fundinum. 

Forvarnir eru meðal þess sem rætt var í hliðarhópi á vegum þingmannanefndarinnar. Þar kom fram að leggja þarf áherslu á heildstæðar forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir allt frá meðgöngu. Ríkið þurfi þar að vera leiðandi og setja skýra stefnu þvert á kerfi.

Markmiðið að valdefla fjölskyldur og börn og styrkja foreldra í hlutverki sínu, ekki síst í upphafi og á erfiðum tímum. Eins þurfi að fræða börnin sjálf um réttindi þeirra.

„Stuðla að fjölskylduvænu samfélagi. Forvarnir felast í því líka að gefa fjölskyldum tíma saman, vinnumarkaður sé fjölskylduvænni og að barn geti notið umönnunar foreldra á fyrstu árum barnsins,“ segir í tillögu hópsins.

Jafnframt er talað um að nýta heilsugæsluna með víðtækari hætti en gert er í dag. Heilsugæslan gæti t.d. nýst sem miðstöð fyrir foreldra til að sækja sér fræðslu og jafnvel foreldrafærninámskeið sem heilsugæslan stæði fyrir. 

Frá fundinum í gær.
Frá fundinum í gær.

Mögulegt væri að hafa félagsráðgjafa inni á öllum heilsugæslustöðvum og tryggja þannig öflugri fræðslu til fjölskyldna um réttindi barna og lausnir við vægum vanda.

Lagt er til að geðrækt verði mikilvægur hluti af skólastarfi og lögð áhersla á félagsfærni, samskiptahæfni og valdeflingu. Til staðar þurfa að vera skýrir verkferlar sem tryggja að aðferðir sem beitt við kennslu og í öðrum samskiptum við börn séu gagnreyndar og samræmdar, t.d. er varðar hegðunar- og agamál.

Lagt til að leggja niður barnaverndarnefndir í núverndi mynd

Kynntar voru hugmyndir starfshóps um stefnu í barnaverndarmálum á fundinum í gær en þar er lagt til að leggja niður barnaverndarnefndir sveitarfélaga í þeirri mynd sem þær starfa í dag og setja á laggirnar þverfagleg ráð, svæðisráð. Þau yrðu færri en barnaverndarnefndir í dag og fagskipuð.

Rætt var fjölskyldudómstól og hvort eðlilegt væri að koma slíku kerfi á laggirnar hér á landi og hvers konar mál myndu þá heyra þar undir. Eina var rætt um útvíkkun Barnaverndarstofu í Fjölskyldustofu en þá flytti ákveðið eftirlit þaðan til Gæða- og eftirlitsstofnunar í barnavernd og félagsþjónustu og stofan yrði samhæfingaraðili og verkfærakista fyrir félagsþjónustu og barnavernd sveitarfélaga.

Einn hópanna fjallaði um málefni ungs fólks á aldrinum 18-24 ára. Þar kom fram að mikilvægt sé að undirbúa barn fyrir þær breytingar sem verða við lögræðisaldur, það er 18 ára og ganga þurfi úr skugga um að ekki verði rof á meðferð og þjónustu við þau ungmenni sem þurfa á slíkri þjónustu.

mbl.is/Hari

Eins og staðan er í dag getur barn, sem þó liggur fyrir að verði heimilislaust við 18 ára aldur, ekki sótt um húsnæði fyrr en það nær 18 ára aldri. Þannig koma þau stundum beint úr meðferðar- eða fósturkerfi og inn á tveggja ára biðlista eftir húsnæði.

Rætt um að setja inn heimildir fyrir börn til þess að sækja t.d. um félagslegt húsnæði áður en þau ná 18 ára aldri, eða a.m.k. opna fyrir það byrjað sé að vinna í að útvega slíkt húsnæði. Hinn möguleikinn væri að hafa einhvers konar íbúðakjarna sem væri til þess að brúa bilið frá t.d. úrræðum barnaverndar og þangað til að viðkomandi einstaklingur fær eigið húsnæði á almennum markaði.

Það er mögulegt að vera áfram í barnaverndarúrræðum eftir 18 ára aldur en fæst börn kjósa það en í raun ætti að skylda ákveðna eftirfylgni.

Rætt var um það að í Noregi er börnum sem verið hafa í barnaverndarúrræðum tryggð eftirfylgd til 24 ára aldurs og ef þau neita slíkri eftirfylgd þurfa þau að rökstyðja það hvers vegna þau telja sig ekki þurfa á slíkum stuðningi að halda.

Mikilvægt er að virkja skólakerfið sjálft og tryggja ákveðinn sveigjanleika. Það er t.d. erfitt fyrir barn sem verður svo 18 ára að fara í skóla í Reykjavík því þar er ekki heimavist og erfitt að fá húsnæði. Heimavist með stuðningi er hins vegar starfrækt á Akureyri og annars staðar á landsbyggðinni.

Stimpilinn „endurhæfing fullreynd“ á ungmenni ekki boðlegur

Hópurinn hefur áhyggjur af þeim fjölda ungs fólks sem ekki eru þátttakendur í samfélaginu og þess hóps sem fer á örorku en þeim hefur fjölgað mikið síðustu ár.

Endurhæfingarmeðferð sem nú er í boði virðist virka illa fyrir ungt fólk. Ófullnægjandi hluti þeirra fær styrk til endurhæfingar hjá Virk og meira en 50% falla út úr endurhæfingu hjá Janus skv. nýjum tölum. Stundum er endurhæfing þá talin fullreynd og fólk festist í ákveðinni stöðu. Ungmenni þurfa að eiga möguleika á starfsendurhæfingu.

„Það ætti ekki að vera möguleiki að festast með stimpilinn „endurhæfing fullreynd“ þegar viðkomandi er aðeins 18 – 25 ára eins og raunin er því miður í dag,“ segir í samantekt hópsins en Líneik Anna Sævarsdóttir, formaður þingmannanefndar um málefni barna, kynnti helstu niðurstöður hópanna á vinnufundinum um málefni barna í gær.

mbl.is