Gæti verið samið aftur við Heimahjúkrun

Sjúkratryggingar Íslands sögðu upp samningnum við fyrirtæki sem annast heimahjúkrun …
Sjúkratryggingar Íslands sögðu upp samningnum við fyrirtæki sem annast heimahjúkrun langveikra barna.

„Staðan er þannig að við sögðum upp samningnum og nýttum þannig þennan 6 mánaða uppsagnarfrest sem er í honum. Það er auðvitað bara eðlilegur hlutur, til þess eru uppsagnarákvæði í samningum,“ segir María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, í samtali við mbl.is.

Sjúkratryggingar sögðu í byrjun mánaðar upp samningi við Heimahjúkrun barna hjá Heilsueflingarmiðstöðinni. 6 mánaða uppsagnarfrestur er fram í desember. María segir að lögð verði áhersla á að tryggja að ekki verði þjónusturof þegar fresturinn rennur út.

María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, útilokar ekki að samið verði …
María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, útilokar ekki að samið verði aftur við Heimahjúkrun barna áður en samningurinn rennur út. Það gerist í desember. Ljósmynd/Aðsend

Fyrir þann tíma verði kominn samningur, hvort sem það verður við Heimahjúkrun barna, Landspítalann, sjúkrahús eða önnur fyrirtæki. María útilokar ekkert.

„Ástæðan er sú að við viljum endurskoða ýmislegt í þessari þjónustu. Bæði erum við að endurskoða almenna skilmála okkar gagnvart öllum þjónustuveitendum. Síðan viljum við endurskilgreina og skýra þjónustuna sem er verið að veita börnum í heimahúsum og til þess þarf nýjan samning,“ segir María.

Um það við hvern verði samið segir María ekkert liggja fyrir en ekkert útilokað heldur. „Það er ekki aðalatriðið við hvern er samið heldur að tryggja að það verði ekki þjónusturof. Þess vegna er svona mikilvægt að segja upp samningnum með góðum fyrirvara og ætla sér góðan fyrirvara til að vinna nýjan samning,“ segir hún.

Útilokar ekkert á þessari stundu

Uppsagnarfresturinn er sem segir 6 mánuðir. Í desember rennur samningurinn út.

„Þá reikna ég með að þjónustan verði komin í farveg hvort sem samið verður við þennan aðila eða annan,“ segir María.

Eruð þið með þessu einfaldlega að reyna að knýja fram betri samninga?

„Að sjálfsögðu erum við að reyna að ná samningum sem tryggja hagsmuni sjúklinga enn betur,“ segir María.

Útilokið þið að samið verði aftur við Heimahjúkrun barna?

„Ég útiloka það að sjálfsögðu ekki. Það verður skoðað á næstu mánuðum,“ segir María.

En að samið verði við Landspítalann um að þeir veiti þjónustuna?

„Ég útiloka ekkert á þessari stundu,“ segir María.

Stjórnvöld ákveða hvaða þjónusta á að vera í boði

Við hvern Sjúkratryggingar semji segir María velta á því með hvaða hætti „við fáum besta þjónustu á sem hagkvæmastan hátt.“

„Það eru stjórnvöld sem ákveða hvaða þjónusta á að vera í boði. Við semjum um þá þjónusta sem stjórnvöld hafa sagt að eigi að semja um. Hlutverk Sjúkratrygginga er að afla þeirrar þjónustu, á sem bestum gæðum,“ segir María.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert