Miskabætur í Hlíðamáli hópfjármagnaðar

Miskabæturnar sem Hildur Lilliendahl Viggósdóttir og Oddný Arnarsdóttir var gert …
Miskabæturnar sem Hildur Lilliendahl Viggósdóttir og Oddný Arnarsdóttir var gert að greiða í Héraðsdómi verða greiddar úr nýjum Málfrelsissjóði kvenna, sem til frambúðar á að vera til þess gerður að styðja konur sem eru dæmdar fyrir dómstólum fyrir að tjá sig um kynferðisofbeldi. Ljósmynd/Samsett

Tæplega ein og hálf milljón króna hefur safnast í netsöfnun á Karolina Fund sem stofnað var til í kjölfar þess að Hildi Lilliendahl Viggósdóttur og Oddnýju Arnarsdóttur var gert að greiða miskabætur vegna ummæla sinna um kynferðisofbeldi. 

Söfnunin fer fram hér og yfirskriftin er Málfrelsissjóður. Framtakið er sem sé til frambúðar og í yfirlýsingu segir að sjóðnum sé ætlað að „standa straum af málsvarnarkostnaði og mögulegum skaðabótum sem konur kunna að vera dæmdar til að greiða ef þær tjá sig um kynbundið ofbeldi á opinberum vettvangi.“

Á síðu Málfrelsissjóðsins eru Hildur og Oddný ekki nefndar á nafn berum orðum en ljóst er að hann var stofnaður í ljósi þeirra dóma sem féllu í þeirra málum. Og Hildur er vægast sagt ángæð með framtakið: „Mikið óskaplega er fólk fallegt og gott,“ segir hún og deilir hlekki á söfnunina. 

Það eru þær Helga Þórey Jónsdóttir, Anna Lotta Michaelsen, Elísabet Ýr Atladóttir og Sóley Tómasdóttir sem standa að söfnuninni. Þær hafa verið viðriðnar kvenréttindabaráttu hver með sínum hætti.

„Í nýföllnum héraðsdómum var meðalupphæð miskabóta til handa hvorum manni um sig 185.000 krónur. Við það bætast svo 600.000 króna málsvarnarlaun og dráttarvextir sem ætla má að verði allt að 100.000 krónur til handa hvorum manni að meðaltali. Framlag þitt dugar fyrir 0,78% af miskabótunum til eins manns,“ segir í skilaboðum til þeirra sem leggja fram tíu evrur til söfnunarinnar, andvirði ríflega 1400 króna.

„Stofnun málfrelsissjóðs er ætlað að draga úr ótta kvenna við að tjá sig og tryggja að fjárhagsáhyggjur bætist ekki við það andlega og tilfinningalega álag sem fylgir því að tala um kynbundið ofbeldi. Markmiðið er að sjóðurinn muni geta staðið undir málsvarnarlaunum og mögulegum skaðabótum sem konur kunna að verða dæmdar til að greiða vegna umræðna um kynbundið ofbeldi og nauðgunarmenningu,“ segir á síðunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina