Systurnar virðast vera í góðum gír

Litla-Grá og Litla-Hvít í laug sinni í Vestmannaeyjum.
Litla-Grá og Litla-Hvít í laug sinni í Vestmannaeyjum. Ljósmynd/Sea Life Trust

Mjaldrarnir Litla-Grá og Litla-Hvít virðast una sér ágætlega í lauginni sinni í Vestmannaeyjum, eftir lang og strangt ferðalag frá Sjanghæ til Heimaeyjar í vikunni. Það er allavega ekki annað að sjá á ljósmynd sem hefur borist frá Sea Life Trust, en þar sjást systurnar svamla um í lauginni.

Í þessari sérútbúnu laug verða hvalirnir í um það bil fjörutíu daga, áður en þeim verður hleypt út í hin nýju heimkynni sín í Klettsvík við Heimaey. Þá verður laugin áfram til taks fyrir þær systur, ef að aðstæður verða á einhvern hátt erfiðar fyrir þær í söltum sjónum á griðasvæðinu.

Litla-Grá og Litla-Hvít eru fyrstu mjaldrarnir sem fá að búa í sjókví eftir að hafa verið í prísund í nokkur ár, en þær voru sirkúsdýr í sædýragarðinum Changfeng Ocean World í Sjanghæ, frá því að þær voru fangaðar á unga aldri við strendur Rússlands árið 2011.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert