Þarf líklega að borga fyrir prílið á morgun

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, er á sterkum lyfjum vegna sjaldgæfs …
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, er á sterkum lyfjum vegna sjaldgæfs gigtarsjúkdóms en segist þakklátur fyrir hversu vel gengur að halda einkennunum niðri. „Ég hef þurft að aðlaga mína dagskrá en það var kannski skynsamlegt hvort sem.“ mbl.is/Hari

„Ég tileinkaði þetta príl reyndar Landssambandi gigtarsjúklinga og það er ekki útilokað að ég þurfi að borga fyrir þetta á morgun,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Það kom einhverjum ef til vill í opna skjöldu þegar myndir af borgarstjóranum að klifra upp í vita birtust um hádegisbil, þegar verið var að virkja nýja gula innsiglingarvitann við Sæbraut.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri er léttur á fæti eins og …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri er léttur á fæti eins og sjá má og vippaði sér upp í vitann á augabragði. mbl.is/Hari

Dagur er á sterkum lyfjum vegna sjaldgæfs gigtarsjúkdóms, fylgigigt, sem hann greindist með fyrir um ári síðan og síðastliðið haust þurfi hann að taka sér veikindaleyfi frá störfum.

Fylgigigtin skerðir hreyfigetu hans og get­ur flakkað á milli liða og lagst á líf­færi. Dagur lét það hins vegar ekki á sig fá í dag. „Þetta er auðvitað það sem þarf að gerast þegar maður kemur að vita, það er enginn stigi þarna upp, það er annað hvort að príla eða horfa löngunaraugum þarna upp þannig að ég varð við áskoruninni og komst upp. Og niður. Án þess að verða meint af,“ segir Dagur léttur í bragði.

Sæbrautin okkar „sunset boulevard“

Vitinn leysir innsiglingarvitann sem verið hefur í turni Sjómannaskólans frá árinu 1945. Hann þjónaði hluverki sínu þar til háhýsin við Borgartún og Hátún fóru að skyggja á geisla vitans. Dagur segir því að um sögulega stund sé að ræða og segir hann Sæbrautina bjóða upp á fleiri spennandi tækifæri.

„Mér finnst Sæbrautin í sjálfu sér svolítið vanmetið svæði í borginni. Í mínum huga eigum við að hugsa Sæbrautina sem samfelldan garð eða útivistarsvæði, þetta er í raun það sem aðrar borgir myndu kalla „sunset boulevard“. Þarna sest sólin í vestri og þetta er dásamlegt. Mín framtíðarsýn er sú að við höldum áfram að gera áhugaverða og fallega og skemmtilega áfangastaði eftir Sæbrautinni.“

„Ég þarf að passa mig“

Aðspurður um heilsuna almennt þessa daga segir Dagur að vel gangi að halda einkennunum niðri en til þess þarf hann að taka stóran lyfjaskammt daglega. „Ég þarf að passa mig, þetta er svolítið eins og að fara út að hlaupa með teygju í bakinu, ef maður reynir að fara of geyst þá togar hún í mann. Ég hef þurft að aðlaga mína dagskrá en það var kannski skynsamlegt hvort sem.“

Dagur segir það versta gengið yfir, vonandi. „Læknirinn sagði strax að hann væri bjartsýnn eftir að ég var kominn yfir versta hjallann, en bætti við hlæjandi: „Þú verður að passa þig að vera ekki undir neinu álagi.“,“ segir Dagur og hlær sjálfur.

Hann er þakklátur fyrir hvað gengur vel. „Gigt er mjög algengur sjúkdómur og allir sem eru með gigt þekkja það að þurfa að sníða sér stakk eftir vexti þannig ég held að maður sé spar á yfirlýsingarnar en reynir að standa sig eins vel og maður getur.“  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert