45 alvarleg atvik skráð

Alls voru 45 skráð alvarleg óvænt atvik hjá heilbrigðisstofnunum í fyrra. Um er að ræða atvik sem valdið hefur eða hefði getað valdið sjúklingi alvarlegu tjóni eða varanlegum örkumlum. Þetta kemur fram í ársskýrslu embættis landlæknis.

Árið 2018 voru samtals rúmlega tíu þúsund óvænt atvik skráð í íslenskri heilbrigðisþjónustu eða svipaður fjöldi og árið 2017, þó heldur fleiri. Með óvæntu atviki er átt við óhappatilvik, mistök, vanrækslu eða önnur atvik sem valdið hafa sjúklingi tjóni eða hefðu getað valdið sjúklingi tjóni.

Samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu er tilgangurinn með skráningu óvæntra atvika sá að finna skýringar á þeim og leita leiða til að tryggja að þau endurtaki sig ekki. Algengustu skráð óvænt atvik á heilbrigðisstofnunum á landinu öllu árið 2018 voru byltur/föll, eða alls 5348 talsins. Önnur algeng skráð atvik tengdust lyfjameðferð, eða samtals 1407 talsins á landsvísu.

Samkvæmt 10. gr. laga um landlækni og lýðheilsu ber þeim er veita heilbrigðisþjónustu að tilkynna án tafar til landlæknis um óvænt atvik sem valdið hefur eða hefði getað valdið sjúklingi alvarlegu tjóni eða varanlegum örkumlum. Landlæknir rannsakar öll slík tilkynnt alvarleg atvik með það að markmiði að draga af þeim lærdóm, leita úrbóta og tryggja þannig að slík atvik eigi sér ekki aftur stað. Skráðum alvarlegum óvæntum atvikum hefur fjölgað stöðugt síðastliðin ár en þau voru 29 árið 2017. Í ársskýrslunni kemur fram að mjög líklega er hér um bætta skráningu á atvikum að ræða vegna vitundarvakningar en ekki raunaukningu á óvæntum alvarlegum atvikum líkt og tölurnar gefa til kynna.

Ársskýrsla embættis landlæknis í heild

Verulega dregið úr ávísunum á ópíóíða

Ávísunum tauga- og geðlyfja fækkaði á árinu um 1,6% miðað við árið 2017. Í einstökum lyfjaflokkum má nefna að ávísanir ýmissa örvandi lyfja og ópíóíða drógust verulega saman á árinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert