Norrænt samstarf í miklum metum

Samstarf við aðrar norrænar þjóðir er í miklum metum hjá …
Samstarf við aðrar norrænar þjóðir er í miklum metum hjá íslensku þjóðinni samkvæmt niðurstöðum könnunar Maskínu. Ljósmynd/Johannes Jansson

Meirihluti Íslendinga er jákvæður í garð alþjóðastofnana og þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi. Íslendingar eru sérstaklega jákvæðir í garð norræns samstarfs.

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins og er niðurstaða könnunar sem Maskína gerði fyrir utanríkisráðuneytið um viðhorf Íslendinga til alþjóðasamstarfs.

Mikill meirihluti svarenda telur hagsæld Íslands byggjast að miklu leyti á alþjóðlegri samvinnu (73,6%) og alþjóðlegum viðskiptum (78,3%). Þá voru 92% svarenda jákvæðir í garð norræns samstarfs. Jákvæðni er að sama skapi mikil í garð þátttöku Íslands í störfum Sameinuðu þjóðanna (77,9%) sem og mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna (80,8%).

Viðhorf til Norðurskautsráðsins var mestmegnis jákvætt (73,8%) sem og viðhorf til Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) (62,3%). Jákvæðni svarenda var minni í garð Evrópuráðsins í Strassborg (50,8%) og Alþjóðabankans (36%).

Evrópumálin voru skoðuð sérstaklega og er stuðningurinn við EES-samninginn mikill. Rúm 55% eru jákvæð gagnvart aðild að EES-samningnum en um 11,8% neikvæð.

Evrópusambandið er aftur á móti ekki jafn vinsælt en 43% svarenda eru andvígir inngöngu Íslands í ESB. Samkvæmt könnun Maskínu frá því í mars sl. eru 31,6% Íslendinga fylgjandi inngöngu í Evrópusambandið.

Samkomusalur leiðtogaráðs Evrópusambandsins í Brussel. 43% Íslendinga eru andvíg inngöngu …
Samkomusalur leiðtogaráðs Evrópusambandsins í Brussel. 43% Íslendinga eru andvíg inngöngu í ESB. AFP

Flestum þykir mikilvægt að íslensk stjórnvöld veiti þróunarríkjum og íbúum þeirra aðstoð (79,1%) og á það sérstaklega við um mannúðaraðstoð. Fjórum af hverjum tíu finnst að það eigi að vera eitt af forgangsmálum íslenskra stjórnvalda að draga úr fátækt í þróunarríkjum en 26,6% voru því ósammála.

Niðurstöður könnunarinnar má nálgast hér í heild sinni. Hún var framkvæmd á netinu dagana 14.–27. maí og voru svarendur 824 talsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert