Umfjöllun Jakobs „öll hin furðulegasta“

Jakob Frímann Magnússon tónlistarmaður hefur verið gagnrýndur fyrir ummæli sín …
Jakob Frímann Magnússon tónlistarmaður hefur verið gagnrýndur fyrir ummæli sín um einhverfu í útvarpsviðtali. mbl.is/Eggert

Einhverfusamtökin hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna orða sem Jakob Frímann Magnússon lét falla um einhverfu í útvarpsþættinum Bítinu á Bylgjunni í gær.

Í þættinum ræddi Jakob Frímann um einhverfu í samhengi við óstaðfestar kenningar um mengaða fæðu og áhrif hennar og lét þau orð falla að þegar að „mengað sæði“ renni saman við „mengað egg“ verði „kokteil-effekt“ sem þýði að börn „fæðast starandi út í blámann og ná ekki sambandi við neitt.“

Þetta kallaði Jakob Frímann ennfremur „bráðaeinhverfu“. Ummæli Jakobs Frímanns vöktu nokkra athygli og meðal annars var fjallað um það á vef DV í gær að móðir tveggja drengja á einhverfurófi gagnrýndi Jakob harðlega fyrir orð sín, sagði hann meðal annars mengaðan „fordómum, þekkingarleysi og fyrirlitningu gagnvart fötluðu fólki.“

Því skal haldið til haga að Jakob Frímann hafði síðan samband við DV og sagði að það hefði ekki verið ætlun sín að að særa neinn með ummælunum, sem hefðu verið mistúlkuð.

Orð Jakobs byggðu ekki á staðfestum rannsóknum

Einhverfusamtökin vilja koma því á framfæri að engin greining sé til sem heitir bráðaeinhverfa og segja umfjöllun Jakobs í útvarpsþættinum hafa verið alla hina furðulegustu og ekki byggða á staðfestum rannsóknum.

„Einhverfa stafar ekki af „menguðu sæði og menguðum eggjum“. Einhverfa stafar af öðruvísi taugaþroska. Orsakir einhverfu eru ekki þekktar en rannsóknir benda til þess að um sé að ræða samspil erfða og umhverfis þar sem erfðaþátturinn ræður mestu. Furðum við okkur á því að þáttastjórnendur skuli ekki hafa brugðist við orðum Jakobs Frímanns á einhvern hátt.  Vanþekking viðkomandi á einhverfu er sennileg skýring,“ segir í yfirlýsingu Einhverfusamtakanna.

Samtökin segja einnig að „óvarleg umfjöllun og rangar fullyrðingar“ geti aukið á fordóma og valdið vanlíðan hjá fólki á einhverfurófi og aðstandendum þeirra. 

„Viljum við hvetja alla aðila til að afla sér þekkingar um einhverfu. Á vefsíðu Einhverfusamtakanna er ýmsan fróðleik að finna www.einhverfa.is og í Bíó Paradís er verið að sýna nýja íslenska heimildarmynd um konur á einhverfurófi, myndina „Að sjá hið ósýnilega“,“ segir í niðurlagi yfirlýsingarinnar frá Einhverfusamtökunun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert