Fælandi ilmolíur uppseldar í apótekum

Kláði, bólga og óþægindi fylgja lúsmýbitunum. Þá eru góð ráð …
Kláði, bólga og óþægindi fylgja lúsmýbitunum. Þá eru góð ráð dýr en greinilega ekki svo dýr að lavenderolíur seljist ekki upp í apótekum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í apótekunum tveimur sem eru með opið nú um helgina á höfuðborgarsvæðinu eru ilmolíur sem fæla frá lúsmý uppseldar. Annar varnarbúnaður gegn aðgangshörðu lúsmý rýkur út eins og heitar lummur.

Sterakrem, ofnæmistöflur, fælandi sprey, lavender-olía, tea tree olía, eftirbitskrem, bólgueyðandi lyf og svo framvegis og svo framvegis. Lauslega reiknað hefur þriðji hver maður sem gengið hefur inn í Lyfju í Lágmúla verið á höttunum eftir vörum í þessum flokki.

Svo mikil hefur eftirspurnin verið eftir olíunum, og þetta gildir einnig um Apótekarann í Austurveri, að ilmolíurnar eru flestar uppseldar. Nokkrar flöskur eru þó eftir. 

Birgðastaðan er góð á lúsmývörnum í opnum apótekum. Umferðin hefur …
Birgðastaðan er góð á lúsmývörnum í opnum apótekum. Umferðin hefur verið töluverð um helgina. mbl.is/Friðrik

Umferðin hefur verið töluverð síðustu daga, segir starfsmaður Lyfju í samtali við mbl.is. „Það eru allir að spyrja um eitthvað svona.“ Birgðastaðan er þó góð á flestu nema olíunum og það sem er mest að fara er krem sem menn bera á sig eftir bit til að minnka kláðann.

Aðrir eru forsjálir og kaupa sér fæli fyrirfram, ekki síst þeir sem eru á leiðinni upp í sumarbústað, eins og í Grímsnesi eða Laugarvatni þar sem pöddurnar eru skæðar þessi dægrin. Í Apótekaranum hafa í það minnsta flestir verið með forvarnir í huga þegar þeir mæta í búðina og hafa verið að leita að fæli.

Þar, og líklega víðar, er boðið upp á öflugan fæli sem inniheldur sérstök efnasambönd sem bægja plágunni frá. Ilmolían á að gegna sama hlutverki en er að sögn ekki eins áhrifarík. Hún er samt uppseld og hlýtur því eitthvað gagn að gera.

mbl.is