Getur byrjað að ganga eftir þrjá daga

Máni safnaði mest allra keppenda.
Máni safnaði mest allra keppenda. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er bara furðu góður og get ábyggilega byrjað að ganga aftur eftir svona þrjá daga,“ segir Máni Hrafnsson, Íslendingur búsettur í Kanada, í samtali við mbl.is eftir að hafa hlaupið upp og niður fjall í 20 klukkustundir samfellt.

Hlaupið, upp og niður hið 1200 metra háa Gæsafjall (e. Grouse Mountain) nálægt Vancouver í Kanada hófst klukkan eitt á föstudag á íslenskum tíma og lauk snemma í gærmorgun.

Þrátt fyrir að Máni sé ekki mikill hlaupagarpur að eigin sögn ákvað hann að leggja í þessa svaðilför til að leggja sitt af mörkum til samfélagsins í Vancouver sem hefur tekið honum opnum örmum síðan hann flutti þangað fyrir 5 árum.

„Mér hefur alltaf fundist þessi fjallgöngubraut frekar skemmtileg og síðan var þetta fyrir gott málefni, barnaspítalann hérna í Vancouver, sem er beint á móti þar sem ég bý, þannig mér fannst tilvalið að gera mitt besta til að styrkja hann,“ útskýrir Máni og segir að það hafi verið ljúft að gefa samfélaginu til baka.

Máni ásamt eiginkonu sinni Joey Chan.
Máni ásamt eiginkonu sinni Joey Chan. Ljósmynd/Aðsend

Fyrirfram vissi Máni að verkefnið yrði gríðarlega erfitt eins og gefur að skilja en hann segir gengið hafa verið vonum framar. „Það er erfitt að segja hvað þetta er langt í kílómetrum, aðalmálið er hvað þetta er bratt. Þetta er eiginlega einn kílómeter beint upp í stöðugri brekku, það er aldrei nein jafnslétta.“

Upphaflega ætlaði hann að fara átta ferðir upp og niður fjallið en tókst á endanum að fara heilar tólf ferðir, „sem er orðið brattara en að klifra Everest. Ég er búinn að monta mig aðeins af því,“ segir Máni hlæjandi.

Hann viðurkennir þó fúslega að síðustu ferðirnar hafi verið þungar. „Eiginkona mín, Joey Chan, fór með mér síðustu þrjár ferðirnar og hún nánast dró mig upp fjallið í síðustu ferðinni í svarta myrkri.“

Hjónin söfnuðu samtals 4.395 dollurum sem er meira en nokkur annar keppandi safnaði. Samtals söfnuðu þeir 76 keppendur sem tóku þátt 48.000 dollurum.

Stuðningurinn sem Máni fékk var mikill.
Stuðningurinn sem Máni fékk var mikill. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert