Hefði getað farið illa

Af Facebook-síðu slökkviliðsins.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út síðdegis í gær vegna elds í ruslatunnum við Furulund í Heiðmörk. Vegfarendur létu vita og reyndu að slökkva í tunnunum en réðu ekki við það. 

Slökkviliðsmenn náðu tökum á eldinum mjög fljótlega en það sem bjargaði miklu var að ruslatunnurnar voru í steyptu tunnuskýli. Vegna þess hversu þurrt er á svæðinu var mikil hætta alvarlegum gróðureldum segir varðstjóri í slökkviliðinu. 

Slökkviliðið vill minna á að almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur gefið út að á Vesturlandi er óvissustig vegna mögulegra gróðurelda. Á höfuðborgarsvæðinu gildir hið sama. „Því beinum við því til almennings að nota alls ekki einnota grill á víðavangi eða í trjálundum á útivistarsvæðum. Eins er ekki leyfilegt að nota útiarna eða vera með bálkesti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert