Langar að stækka litrófið okkar

Kristín Eysteinsdóttir leikhússtjóri Borgarleikhússins horfir björtum augum til framtíðar.
Kristín Eysteinsdóttir leikhússtjóri Borgarleikhússins horfir björtum augum til framtíðar. mbl/Eggert

„Næsta leikár tekur mið af þeirri stefnumótunarvinnu sem við fórum í fyrr í vetur og leiðarstefjunum sem við settum okkur til næstu þriggja ára sem eru dirfska, mennska og samtal,“ segir Kristín Eysteinsdóttir borgarleikhússtjóri um komandi leikár sem kynnt er óvenjusnemma í ár. Hún kynnti leikárið í ítarlegu viðtali sem birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 20. júní.

Aðspurð segir Kristín leikárið kynnt tveimur mánuðum fyrr en venjulega til að bregðast við óskum kortagesta sem strax á vorin séu farnir að forvitnast um komandi leikár auk þess sem skipulagningin hafi gengið afar vel fyrir sig í kjölfar stefnumótunarvinnunnar. 

„Það komu ótrúlega margar hugmyndir út úr þeirri vinnu sem skila sér strax inn í næsta leikár í ýmsum hliðarviðburðum sem auka flóruna og stækka samhengið,“ segir Kristín og tekur fram að púsluspilið sé misflókið milli ára. Meðal hugmynda úr stefnumótunarvinnunni sem strax komast í framkvæmd er að allar uppfærslur á Stóra sviðinu verða textaðar á bæði pólsku og ensku einu sinni í viku.

„Dirfskan birtist í því að við höfum skoðað hvernig við getum opnað leikhúsið meira og verið með fjölbreyttari vinnuaðferðir, ólíkari verkefni og meiri aldursbreidd í hópi listafólks. Okkur langar að stækka litrófið okkar og teygja okkur meira út í samfélagið. Við viljum eiga í samtali við listafólk og áhorfendur um nýjar nálganir og ný verk. Í verkefnum okkar erum við síðan að skoða manneskjuna í öllum sínum myndum,“ segir Kristín þegar hún er innt eftir því hvernig kjörorðin þrjú birtist í verkefnum ársins.

Tíu ný íslensk leikrit

„Líkt og síðustu ár leggjum við mikla áherslu á íslenska leikritun. Við lítum á það sem skyldu okkar gagnvart áhorfendum að við fjöllum um okkar samtíma, umhverfi og veruleika. Auk þess er mikilvægt að rækta hæfileikaríka íslenska höfunda sem segja aðrar sögur en leikskáld úti í heimi,“ segir Kristín og bendir á að frumsýnd verði tíu ný íslensk leikrit á komandi leikári.

„Liður í því er að setja Umbúðalaust af stað, en þar bárust 88 umsóknir,“ segir Kristín, en Umbúðalaust er hugsað sem vettvangur fyrir unga sviðshöfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref og leið til að efla tengslin við grasrótina. Verkefnin þrjú sem sýnd verða eru Kartöflur sem sviðslistahópurinn CGFC frumsýnir í október og fjallar meðal annars um sviðsettar auglýsingar, Ást og karókí sem samnefndur sviðslistahópur frumsýnir í mars og fjallar um ómissandi karlmenn og Ertu hér? sem frumsýnt er í maí og fjallar um 25 ára vináttu Ásrúnar Magnúsdóttur og Höllu Þórlaugar Óskarsdóttur. „Hvert verk verður sýnt þrisvar til fimm sinnum hér á þriðju hæðinni. Hóparnir fá fjórar vikur til að vinna sýningar sínar og hver sýning verður um sextíu mínútur að lengd. Hópunum gefst tækifæri til að gera tilraunir og leika sér, en við lítum á sýningarnar sem verk í vinnslu,“ segir Kristín og tekur fram að miðaverði verði stillt í hóf.

Gísli Örn Garðarsson fer með hlutverk í Ég hleyp.
Gísli Örn Garðarsson fer með hlutverk í Ég hleyp. mbl/Ásdís

Hvað mótar sjálfsmyndina?

Fyrsta frumsýning haustsins verður í september á Ég hleyp eftir Line Mørkeby í þýðingu Auðar Övu Ólafsdóttur og leikstjórn Baldvins Z. „Line Mörkeby er eitt fremsta leikskáld Danmerkur og í þessu áleitna leikriti leitar hún svara um hvernig við getum lifað áfram eftir barnsmissi,“ segir Kristín, en með eina hlutverk sýningarinnar fer Gísli Örn Garðarsson. „Hann fer í óvenjulegt ferðalag, sem er í senn átakanlegt og heillandi,“ segir Kristín og bendir á að Gísli Örn hlaupi bókstaflega í gegnum sálarangist aðalpersónunnar.

Fyrsta uppfærslan á Litla sviðinu verður einnig í september á leikritinu Eitur eftir Lot Vekemans í þýðingu Ragnheiðar Sigurðardóttur og leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur, en Börkur Jónsson gerir leikmyndina. „Þetta hollenska verk hefur verið sett upp víða um heim og hlotið fjölda verðlauna,“ segir Kristín og tekur fram að það sé ávallt ánægjulegt að geta sýnt sterk leikrit eftir konur. „Við erum búin að vera með þetta verk í skoðun nokkuð lengi,“ segir Kristín og bendir á að ljóðræna textans sé eitt af því sem heillaði. „Við urðum strax mjög spennt fyrir því að fá Kristínu til að leikstýra þessu af því að þótt verkið sé natúralískt á yfirborðinu leynist í því annar heimur sem hægt er að opna. Verkið fjallar um fráskilin hjón sem hittast í fyrsta sinn 12 árum eftir skilnaðinn í kapellu við kirkjugarð þangað sem starfsmaður kirkjugarðsins hefur stefnt þeim en lætur síðan aldrei sjá sig. Meðan þau bíða gefst persónunum tækifæri á að fara yfir þá atburði um urðu til þess að þau skildu. Þetta er uppgjörsverk, en í grunninn fjallar það um hvernig maður kemst yfir áfall og hvort maður eigi rétt á því að vera hamingjusamur aftur. Persónur verksins hafa farið algjörlega hvort sína leiðina að því að takast á við þetta áfall sem þau urðu fyrir,“ segir Kristín. Með hlutverk hjónanna fara Nína Dögg Filippusdóttir og Hilmir Snær Guðnason.

Charlotte Bøving leikstýrir leikhópnum RaTaTam.
Charlotte Bøving leikstýrir leikhópnum RaTaTam. mbl/Ómar

Fyrra samstarfsverkefni leikársins er HúH! eftir sviðslistahópinn RaTaTam í leikstjórn Charlotte Bøving sem frumsýnt verður á Litla sviðinu í september. „Þau hafa í sínum verkum alltaf verið að takast á við eina stóra rannsóknarspurningu með aðferðum heimildarleikhússins. Í þessari sýningu skoða þau sjálfsmynd Íslendinga og hvað mótar hana,“ segir Kristín, en meðal leikara hópsins eru Albert Halldórsson, Guðmundur Ingi Þorvaldsson og Halldóra Rut Baldursdóttir.

Stórskáldið eftir Björn Leó Brynjarsson í leikstjórn Péturs Ármannssonar, sem Björn skrifaði meðan hann var hússkáld Borgarleikhússins 2017-18, verður frumsýnt á Nýja sviðinu í október. „Verkið fjallar um konu sem er að gera heimildarkvikmynd um frægasta skáld Íslands sem hefur lokað sig af frá umheiminum og býr í Amazon-frumskóginum. Konan er einnig dóttir hans, en skáldið yfirgaf hana þegar hún var lítil. Hún er því samtímis að fjalla um goðsögnina og að nálgast pabba sinn,“ segir Kristín. Með hlutverk skáldsins fer Jóhann Sigurðarson, Unnur Ösp Stefánsdóttir leikur dótturina og Hilmar Guðjónsson unnusta hennar. „Verkið tekur á ímynd okkar um snillinginn og afbyggir að nokkru. Samtímis er verið að skoða tengsl sviðsetningar og raunveruleika á húmorískan, næman og fallegan hátt,“ segir Kristín. Leikmynd og búninga gerir Ilmur Stefánsdóttir.

Farsinn á sér djúpar rætur

Fyrsta frumsýning leikársins á Stóra sviðinu verður í október á farsanum Sex í sveit eftir Marc Camoletti í þýðingu Gísla Rúnars Jónssonar og leikstjórn Bergs Þórs Ingólfssonar. Leikmynd gerir Petr Hlousek. „Þetta franska verk er vinsælasti gamanleikur Leikfélags Reykjavíkur frá upphafi,“ segir Kristín og rifjar upp að verkið hafi verið sýnt í þrjú ár síðast þegar það fór á svið Borgarleikhússins fyrir rúmum 20 árum.

„Okkur fannst spennandi að skoða þennan gamanleik aftur, en farsinn á mjög djúpar rætur í sögu leikfélagsins,“ segir Kristín og bendir á að starfsmenn Borgarleikhússins finni fyrir miklum áhuga leikhúsgesta á gamanleikjum. „Þegar þessi gamanleikur er skoðaður til hliðsjónar við marga aðra farsa kemur skýrt í ljós að það er margt mun nútímalegra í þessu verki, ekki síst út frá birtingarmyndum kynjanna, sem við erum ánægð með. Viðhorfið sem birtist í försum er oft svo gamaldags, sem getur verið snúið.

Verkið gerist í Eyjafirðinum þar sem efnuð hjón á miðjum aldri ætla að eyða helginni í lúxusbústað sínum,“ segir Kristín og tekur fram að bæði hjónin séu gerendur í allri atburðarásinni og séu jafngóð í því að beita maka sinn blekkingum með óvæntum afleiðingum.

„Við erum að fá tvo nýja leikara inn í húsið í burðarhlutverkin sem er spennandi,“ segir Kristín og vísar þar til Sólveigar Guðmundsdóttur og Jörundar Ragnarssonar sem leika hjónin. Auk þeirra leika í sýningunni Sigurður Þór Óskarsson, Vala Kristín Eiríksdóttir, Katrín Halldóra Sigurðardóttir og Haraldur Ari Stefánsson. „Okkur langaði að tefla fram þessari kynslóð leikara og jafnframt færa húmorinn nær okkur. Stundum hafa gamanleikir verið meira fyrir eldri kynslóð áhorfenda, en markmið okkar er að ná líka til yngri áhorfenda með því að nútímavæða húmorinn.“

Brynhildur Guðjónsdóttir leikstýrir Vanja frænda eftir Anton Tsjékov næsta vetur …
Brynhildur Guðjónsdóttir leikstýrir Vanja frænda eftir Anton Tsjékov næsta vetur en hún hlaut Grímuna 2019 sem leikstjóri ársins fyrir Ríkharð III. mbl.is/Eggert

Áhugaverð nálgun

Jólasýning Borgarleikhússins er Vanja frændi eftir Anton Tsjékhov í þýðingu Gunnars Þorra Péturssonar og leikstjórn Brynhildar Guðjónsdóttur sem frumsýnd verður á Stóra sviðinu 11. janúar 2020 á afmæli Leikfélags Reykjavíkur. „Þetta verk hefur lengi verið á óskalistanum hjá okkur. Persónulega finnst mér þetta besta verk Tsjékhovs þar sem það býr yfir bæði miklum húmor og örvæntingu. Persónur verksins borða og drekka allan daginn á sama tíma og þær eru síkvartandi. Það er eitthvað við þessar aðstæður sem kallast sterklega á við samtímann, einhver dekadens sem er gaman að rannsaka. Þetta er fólk sem maður kennir til með á sama tíma og það er algjörlega í ruglinu,“ segir Kristín og tekur fram að spennandi verði að sjá verkið í túlkun Brynhildar.

„Hún setti upp Ríkharð þriðja hjá okkur í vetur sem var einstakt ferli. Áður en sú sýning var frumsýnd vorum við farin að ræða hvaða leikriti hún myndi næst leikstýra, en hún hefur mestan áhuga á að takast á við klassísk verk,“ segir Kristín og rifjar upp að mikill áhugi hafi verið meðal leikstjóra um að fá að leikstýra Ríkharði þriðja eftir að tilkynnt var á starfsmannafundi að til stæði að setja það upp. „Mikill fjöldi reyndra leikstjóra lýsti yfir áhuga á að leikstýra verkinu og gerði grein fyrir nálgunaraðferð sinni. Hugmynd Brynhildar var hins vegar sú nálgun sem okkur fannst áhugaverðust. Það er ekki sjálfgefið að reynd leikhúsmanneskja geti sest í leikstjórastólinn og látið hugmyndir sínar ganga upp. Þess vegna var ennþá meira gefandi að sjá þetta ganga upp. Það er stórkostlegt fyrir okkur að eiga leikstjóra á þessum mælikvarða sem er kona, því hennar lestur á Ríkharði var allt annar en karlkyns kollega hennar,“ segir Kristín og bendir sem dæmi á að hlutverk kvennanna í Ríkharði þriðja séu oft skorin talsvert niður en Brynhildur hafi valið að skoða titilpersónuna út frá samskiptum hans við konurnar.

„Leikmynd Barkar Jónssonar fyrir Vanja frænda verður væntanlega frekar abstrakt og óstaðbundin þótt hún verði á köflum nútímaleg, en búningar Filippíu Elísdóttur munu vísa í períóduna,“ segir Kristín. Leikhópinn skipa Valur Freyr Einarsson, sem leikur titilhlutverkið, Hilmir Snær Guðnason, Jóhann Sigurðarson, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Sigrún Edda Björnsdóttir, Margrét Helga Jóhannsdóttir og Halldór Gylfason.

Hjörtur Jóhann Jónsson þótti fara á kostum sem Ríkharður III. …
Hjörtur Jóhann Jónsson þótti fara á kostum sem Ríkharður III. í vetur sem leið. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

Nýtt verk eftir Tyrfing

Helgi Þór rofnar nefnist nýtt leikrit eftir Tyrfing Tyrfingsson í leikstjórn Stefáns Jónssonar sem frumsýnt verður á Nýja sviðinu í febrúar. Um er að ræða fimmta verkið eftir Tyrfing sem Borgarleikhúsið setur upp en hann var hússkáld leikhússins 2014-15. „Nýja verkið fjallar um eitraða karlmennsku, en kveikjan að verkinu voru viðtöl sem Tyrfingur tók við unga karlmenn um hlutverk þeirra í lífinu og samviskubitið og togstreituna sem þeir upplifa margir hverjir yfir því að taka sér pláss í samfélaginu og sýna tilfinningar,“ segir Kristín og tekur fram að verkið sjálft sé þó ekki heimildarleikhús í hefðbundnum skilningi. „Verkið gerist á útfararstofu feðga sem Bergur Þór Ingólfsson og Hilmar Guðjónsson leika,“ segir Kristín og tekur fram að líkt og fyrri verk Tyrfings gerist það í Kópavogi. „Þeir feðgar eru hálfgerðir fúskarar í þessum bransa, enda pabbinn mikill braskari. Atburðarásin fer af stað þegar dóttir manns sem feðgarnir eru að jarða kemur í heimsókn til að fara yfir allt sem viðkemur útförinni. Sonurinn, sem er líksnyrtir, og stúlkan fella hugi saman,“ segir Kristín, en með hlutverk stúlkunnar fer Þuríður Blær Jóhannsdóttir.

Borgarleikhúsið frumsýnir nýtt leikrit eftir Tyrfing Tyrfingsson.
Borgarleikhúsið frumsýnir nýtt leikrit eftir Tyrfing Tyrfingsson. mbl.is/Eggert

„Verkið gengur mjög langt í ákveðnum brútalisma í anda Söruh Kane,“ segir Kristín og bendir á að fá af leikskáldum nýrrar kynslóðar hafi notið jafn mikillar hylli og Tyrfingur. „Verk hans hafa hlotið veglegar kynningar á leiklistarhátíðum í Evrópu, sem er mjög ánægjulegt,“ segir Kristín og bendir á að Borgarleikhúsið hafi látið þýða verk hans yfir á ensku og fleiri tungumál í því skyni að kynna Tyrfing erlendis. „Við erum hluti af evrópsku verkefni sem nefnist Fabula Mundi, sem gengur út á að kynna leikskáld milli landa, og Tyrfingur hefur verið eitt fjögurra leikskálda sem við höfum verið að kynna. Svo ánægjulega vill til að á næsta leikári mun eitt virtasta leikhús Hollendinga, Toneelgroep Oostpool, sviðsetja Kartöfluæturnar þar í landi. Það hefur jafnframt tryggt sér sýningarrétt á nýja leikritinu,“ segir Kristín og bendir á að góðir þýðendur séu mikilvægir í þessu samhengi. „Tyrfingur fann þýðanda í Hollandi, þar sem hann býr, sem nær stílnum hans. Svo nú virðist boltinn vera farinn að rúlla, sem er frábært.“

Sprúðlandi skemmtilegheit

Í febrúar verður Gosi eftir Carlo Collodi í nýrri leikgerð eftir Ágústu Skúladóttur frumsýndur á Litla sviðinu. Haraldur Ari Stefánsson fer með titilhlutverkið og af öðrum leikurum nefnir Kristín Halldór Gylfason og Kötlu Margréti Þorgeirsdóttur. „Okkur hefur lengi langað til að setja upp klassískt ævintýri fyrir yngri áhorfendur á Litla sviðinu. Auðvitað eru til margar útgáfur af þessu ævintýri, en Ágústa hyggst vinna leikgerð sína upp úr upprunalegu sögunni, sem er dekkri en Disney-útgáfan. Grunnspurningin sem við höfum áhuga á snýst um það hvernig einstaklingi er tekið sem er öðruvísi en allir aðrir auk þess sem sannleikurinn er áhugavert þema í verkinu,“ segir Kristín og tekur fram að reikna megi með sprúðlandi skemmtilegri sýningu þar sem tónlist leiki stórt hlutverk í frásagnaraðferðinni. Leikmynd og búninga hannar Þórunn María Jónsdóttir og Elín Sigríður Gísladóttir gerir grímur sem verða áberandi í sýningunni.

Seinna samstarfsverkefni leikársins verður frumsýnt á Nýja sviðinu í febrúar, en það er uppsetning Kvenfélagsins Garps á Er ég mamma mín? eftir Maríu Reyndal í leikstjórn höfundar. „Þetta er sami hópur og stóð að gerð sjónvarpsþáttanna Mannasiðir og leikritsins Sóley Rós,“ segir Kristín, en leikarar uppfærslunnar eru Sólveig Guðmundsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson. „Þetta er hugmynd sem heillaði okkur mjög mikið. Um er að ræða fjölskyldusögu sem gerist á tveimur tímabilum. Annars vegar þegar kvenréttindabaráttan er að taka flugið á áttunda áratugnum og eiginkonan í verkinu ákveður að hætta að sjá um allt á heimilinu og eiginmaðurinn verður nokkuð ráðalaus. Hins vegar í samtímanum þar sem dóttir þeirra hjóna tekst á við aðrar samfélagsbreytingar sem lúta að hlutverkum kynjanna. Sömu leikarar leika hvor tveggja hjónin.“

Verk um vald og valdaleysi

Oleanna eftir David Mamet í þýðingu Kristínar Eiríksdóttur og leikstjórn Hilmis Snæs Guðnasonar verður frumsýnd á Nýja sviðinu í mars. „Það er auðvitað mikið ánægjuefni að Ólafur Darri Ólafsson snúi aftur til starfa hjá okkur og spennandi fyrir áhorfendur að sjá hann aftur á sviði. Hann hafði samband við okkur og lýsti yfir áhuga á að fá að takast á við hlutverk háskólakennarans,“ segir Kristín, en með hlutverk nemandans fer Vala Kristín Eiríksdóttir.

„Í ljósi alls sem gerst hefur í kringum #metoo fannst okkur þetta mjög áhugavert efni. Verkið fjallar um vald, valdleysi og aðstöðumun persónanna tveggja í verkinu,“ segir Kristín og bendir á að leikskáldið setji það í hendur áhorfenda að túlka það sem gerist í samskiptum persónanna. „Okkur finnst það áhugaverð rannsóknarspurning hvernig persónur verksins upplifa hlutina og aðstöðumun þeirra með ólíkum hætti.“ 

Skoða Bubba í okkur

Níu líf er vinnutitill á leikriti Ólafs Egils Egilssonar sem byggt er á ævi Bubba og segir jafnframt sögu þjóðarinnar, en sýningin verður frumsýnd á Stóra sviðinu í mars í leikstjórn Kristínar Eysteinsdóttur sem leikstýrði síðast Ati haustið 2015. „Ég reyndi lengi að streitast á móti því að leikstýra þessari sýningu, því það er alveg full vinna að vera leikhússtjóri og mér hefur fundist ég fá mikla listræna útrás í því starfi. Jafnframt er til mikið af leikstjórum sem mig langar að rækta, þannig að mér hefur ekki fundist það forgangsatriði að ég væri sjálf að leikstýra,“ segir Kristín og rifjar upp að þau Ólafur Egill hafi unnið saman að uppsetningu Fólksins í kjallaranum og Svari við bréfi Helgu, en Kristín leikstýrði að jafnaði tveimur sýningum á ári í Borgarleikhúsinu frá 2008 þar til hún var ráðin leikhússtjóri.

Níu líf nefnist sýning um Bubba Morthens sem Borgarleikhúsið frumsýnir …
Níu líf nefnist sýning um Bubba Morthens sem Borgarleikhúsið frumsýnir í leikstjórn Kristínar Eysteinsdóttur á næsta leikári. mbl/Golli

„Við Ólafur Egill vinnum mjög vel saman. Þegar við vorum byrjuð að tala saman um uppsetningu Níu lífa og velta upp nálgunarleiðum í frásagnaraðferðinni var mig fljótlega farið að dreyma verkið á nóttunni og ég var farin að fá endalausar hugmyndir. Ég fann að ég var orðin inspíreruð af efniviðnum eins og leikstjóri og á endanum þurfti ég bara að játa mig sigraða. Að fenginni reynslu sem leikstjóri veit ég að þegar það kemur svona rosalega skýr löngun til að segja sögu þar sem myndir og draumar leita á mann, þá er rétt að taka það verkefni að sér,“ segir Kristín og rifjar upp að þau Bubbi hafi þekkst lengi. „Þegar ég var 21 árs gaf ég út plötu og í framhaldinu bauð Bubbi mér að spila með sér á Litla-Hrauni á aðfangadag. Ég hef alltaf borið mjög mikla virðingu fyrir Bubba án þess að vera eindreginn aðdáandi. Ég nálgast því viðfangsefnið samtímis af virðingu og kæruleysi, sem ég held að sé mikilvægt,“ segir Kristín og tekur fram að hún sé spennt fyrir frásagnaraðferðinni.

„Bæði hvernig við ætlum að segja þessa sögu, því við erum að fara í gegnum sögu Bubba á sama tíma og við förum í gegnum sögu þjóðarinnar. Það verður lítill drengur í sýningunni sem verður eins og vitni að öllu því sem gerist. Markmið okkar er að frásagnaraðferðin sé opin, þannig að allir í leikhópnum eru þau sjálf og munu öll líka leika Bubba. Við erum að skoða Bubba og okkur í honum og hvernig hann endurspeglast í þjóðarsálinni,“ segir Kristín. Í leikhópnum verða m.a. Jóhann Sigurðarson, Björn Stefánsson, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Rakel Björk Björnsdóttir, Valur Freyr Einarsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir og Halldóra Geirharðsdóttir. Leikmynd gerir Ilmur Stefánsdóttir og búninga Filippía Elísdóttir.

Breyting á leikhúskortum

Veisla nefnist sýning eftir Dóru Jóhannsdóttur og Sögu Garðarsdóttur í leikstjórn Dóru sem frumsýnd verður á Litla sviðinu í apríl. „Það er í raun bara nútímarevía. Dóra leikstýrði Ræmunni hjá okkur og setti upp sýningu með nemendum leikarabrautar LHÍ sem hét Bransinn sem var í revíuformi. Ég var mjög heilluð af því hvernig hópurinn vann verkið. Ég hef saknað þessa forms í nútímanum. Þetta er sketsasýning með söngnúmerum – í raun Skaupið án stjórnmálanna. Þema sýningarinnar eru veislur, en Dóra og Saga hafa mikla reynslu af veislustjórn. Í sýningunni er fjallað um allt það vandræðalega og stórkostlega sem getur fylgt veisluhaldi, hvort heldur er ættarmóti eða árshátíð vinnustaðar,“ segir Kristín. Auk Sögu leika í sýningunni Sigurður Þór Óskarsson, Sigrún Edda Björnsdóttir, Halldór Gylfason og Katla Margrét Þorgeirsdóttir. Prins Póló sér um tónlistina og leikmynd og búninga hannar Eva Signý Berger.

Frá fyrra leikári rata aftur á svið söngleikurinn Matthildur á Stóra sviðinu og Jólaflækja á Litla sviðinu. Af öðrum viðburðum má nefna að boðið verður upp á þrjár ólíkar kvöldstundir, Skjáskot með Bergi Ebba, Um tímann og vatnið með Andra Snæ og Í ljósi sögunnar með Veru Illugadóttur. „Þetta eru þrír hliðarviðburðir sem við bætum inn í áskriftarkortin okkar,“ segir Kristín og bendir á að samhliða sé fyrirkomulagi áskriftarkorta breytt á þá leið að kortagestir geta valið hvaða viðburði sem er inn á kortin sín. „Þar sem nokkuð ólíkt verð er á viðburðum förum við þá leið að fyrir kort með fjórum til sjö viðburðum veitum við 30% afslátt af auglýstu verði, en fyrir kort með átta viðburðum eða fleirum veitum við 40% afslátt,“ segir Kristín að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »