Leita að fólki í alls konar störf

Lára Jónasdóttir hefur starfað fyrir samtökin Læknar án landamæra um …
Lára Jónasdóttir hefur starfað fyrir samtökin Læknar án landamæra um árabil.

„Við erum að leita að fólki í alls konar stöður og það er reynsla sem skiptir mestu ekki formleg menntun,“ segir Lára Jónasdóttir, sem starfar hjá samtökunum Læknar án landamæra. Yfir 30 ólíkar starfsstéttir vinna fyrir samtökin um allan heim.  

Alþjóðlegu sam­tök­in Lækn­ar án landa­mæra, Mé­dec­ins Sans Front­ières (MSFverða með kynningarfund í Reykjavík á þriðjudag og miðvikudag á Kex hostel. Á síðustu árum hefur það færst í aukanna að Íslendingar sæki um að starfa fyrir samtökin og að sögn Láru getur hún hiklaust mælt með því að starfa með MSF enda auki það víðsýni og veiti fólki nýja sýn á heiminn. 

Læknar án landamæra starfa í yfir 70 löndum heims.
Læknar án landamæra starfa í yfir 70 löndum heims.

Að sögn Lára er meðal annars verið að leita að læknum, ekki síst sérfræðilæknum, en ekki bara fólki til að starfa við  mannúðarstörf heldur einnig bílstjórum, verkfræðingum, vélvirkjum, rafvirkjum, smiðum, viðskiptafræðingum og hagfræðingum svo fátt eitt sé nefnt. Til þess að reka heilbrigðisstofnun þarf alls konar fólk, ekki bara heilbrigðismenntað segir Lára. 

Hún segir að það séu allir velkomnir á kynningarfundina en í fyrra, þegar MSF hélt í fyrsta skipti kynningarfundi á Íslandi, hafi um 300 manns komið á hvorn fund. Fólk þurfi alls ekki að sækja um starf hjá Læknum án landamæra til þess að koma og fræðast um starf samtakanna. 

Læknar án landamæra eru yfirleitt komnir á vettvang á undan …
Læknar án landamæra eru yfirleitt komnir á vettvang á undan öðrum hjálparsamtökum.

Lára er með meistarapróf í alþjóða stjórnmálum, með áherslu á átaka- og friðarfræði, og hefur meðal annars starfað hjá RÚV og í sendiráði Íslands í Ósló. Hún hefur starfað um árabil fyrir Lækna án landamæra en hún fór í sitt fyrsta verkefni á þeirra vegum árið 2013 í Afganistan. Frá þeim tíma hefur hún farið reglulega í verkefni á vegum MSF. 

Lára tók eitt og hálft ár í leyfi frá Læknum án landamæra og starfaði fyrir friðargæslu Sameinuðu þjóðanna en er nú málsvari/verkefnastjóri (advocacy) MSF í réttargæslu fyrir skjólstæðinga samtakanna og aðstoðar þá við að gæta réttar síns. Til að mynda að gæta þess að áfram renni fjármunir í verkefni sem MSF hefur sinnt, svo sem kaup á lyfjum, eftir að samtökin eru farin frá viðkomandi svæði. 

Vannært barn fær aðhlynningu á heilsugæslustöð hjálparsamtakanna Læknar án landamæra …
Vannært barn fær aðhlynningu á heilsugæslustöð hjálparsamtakanna Læknar án landamæra í Jemen. AFP

Hennar starfssvæði er einkum Asía og Kyrrahafsríkin og er með starfsstöð í Ástralíu en fer víða um heim á vegum MSF. Var til að mynda í Búrma í síðasta mánuði, er nú í Genf og kemur til Íslands eftir helgi en fer fljótlega til Bangladess.

„Ég sakna þess mest í þessu starfi nú að vera ekki úti í verkefnum því þar vinnum við með skjólstæðingum okkar beint. Læknar án landamæra eru stærstu sjálfstæðu heilbrigðissamtökin sem sinna hjálparstarfi í heiminum og eru með starfsstöðvar í yfir 70 löndum,“ segir Lára. 

Lára segir helstu ástæðuna fyrir því að hún starfi fyrir Lækna án landamæra vera gildi samtakanna. „Þau eru svo sönn og rétt fyrir mér. Óhlut­drægni, sjálf­stæði og hlut­leysi. Að hjálpa þeim sem þurfa mest á því að halda og mannúðarstarfið. Við beinum neyðaraðstoð okk­ar þangað sem þörf­in er mest. Að koma fyrst á staðinn og brúa bilið áður en aðrir koma á vettvang. MSF eru mjög sjálfstæð samtök og þannig geta þau verið sjálfstæð í alvörunni. Mjög lítið hlutfall af peningum samtakanna fer í rekstrarkostnað þannig að 86% af þeim fjármunum sem er safnað fer í verkefnin sjálf,“ segir Lára. 

Læknar án landamæra í Kongó.
Læknar án landamæra í Kongó. AFP

95% af fjár­fram­lög­um Lækna án landa­mæra koma frá einkaaðilum og sam­tök­in taka ekki við fjár­fram­lög­um frá stjórn­völd­um í þeim ríkj­um þar sem sam­stök­in starfa, stjórn­mála­sam­tök­um og alþjóðastofn­un­um eins og Sam­einuðu þjóðunum.

Fólk sem ræður sig til starfa hjá Læknum án landamæra fær greitt fyrir vinnu sína og verkefnin eru yfirleitt sex til níu mánuðir. „Ég hef, líkt og flestir Íslendingar, reynt ýmis störf og það verður að segjast eins og er að þau hafa öll komið að góðum notum í starfi mínu hjá MSF. Þetta reddast og að ganga í öll störf hjálpar mjög oft,“ segir Lára og hlær. „Því við erum öll að vinna saman og eitt af því sem heldur mér og hentar mér vel í starfi fyrir MSF er samstarf - að vinna saman að einhverju - og hefur orðið öðlast nýja merkingu í huga mínum. Því þetta gengur ekki upp öðruvísi en með samvinnu. Til að mynda ef eitthvað kemur upp á heilsugæslunni og þá gera allir það sem þarf,“ segir Lára sem mun deila reynslu sinni og sögum af vettvangi á fundunum á Kex á þriðjudag og miðvikudag. Fundirnir hefjast báða daga klukkan 18 og standa til klukkan 20.

Upplýsingar um kynningarfundina á Facebook 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert