Rigningarspá á Vesturlandi

Úrkomuspáin fyrir fimmtudag.
Úrkomuspáin fyrir fimmtudag. Kort/Veðurstofa Íslands

Ekki er útlit fyrir neina úrkomu að ráði á Vesturlandi fyrr en á fimmtudag. Enn er mjög þurrt á svæðinu og brýnt að fara varlega með eld á ferð þar um, að því er segir á vef Veðurstofu Íslands.

Í dag er spáð hægri breytilegri átt og víða bjartviðri en gengur í suðvestan 5-10 m/s með morgninum og léttir til á Austurlandi og Austfjörðum. Hlýtt og rakt loft fylgir suðvestanáttinni og því þykknar upp suðvestan til á landinu en nú þegar er orðið skýjað að mestu á Vestfjörðum og við Breiðafjörð.

Súld með köflum í kvöld og nótt en þurrt um hádegi á morgun og svo aftur súld með köflum á þriðjudag. Á austurhelmingi landsins er verður þurrt, og þar sem best lætur kemst hitinn yfir 20 stig.  

„Eftir langvarandi þurrkatíð vestanlands tekur gróðurinn væntanlega fagnandi við vætunni, en uppsöfnuð úrkoma er ekki mikil næstu daga. Á fimmtudag og föstudag er svo útlit fyrir rigningu vestan til á landinu og þá blotnar vonandi nægilega fyrir gróðurinn,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Gengur í suðvestan 5-10 með morgninum og þykknar upp, fyrst á Vestfjörðum, en léttir til austanlands. Súld með köflum vestan til í kvöld, en úrkomulítið um hádegi á morgun. Lengst af þurrt og bjart á austurhelmingi landsins. Suðvestan 8-15 norðvestan til annað kvöld, annars hægari.  Hiti 8 til 22 stig, hlýjast á Suðausturlandi.

Á mánudag:
Suðvestan 3-10 og léttskýjað, en skýjað að mestu vestantil á landinu, og dálítil væta þar fram að hádegi. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast um landið austanvert. 

Á þriðjudag og miðvikudag:
Vestan 5-13 m/s, skýjað að mestu og dálítil væta með köflum vestan til á landinu, en léttskýjað á austur helmingi landsins. Hiti 8 til 22 stig, svalast vestast en hlýjast á Suðausturlandi. 

Á fimmtudag:
Suðvestan 5-10 m/s og dálítil rigning, en áfram þurrt og bjart austantil. Hiti 12 til 22 stig, hlýjast austan til. 

Á föstudag:
Útlit fyrir sunnanátt, rigningu með köflum og hiti 10 til 16 stig, en þurrt norðaustan til á landinu og hiti að 22 stigum. 

Á laugardag:
Líkur á hægri norðlægri átt og lítilsháttar vætu í flestum landshlutum. Hiti 12 til 18 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert