Tvær tárvotar unglingsstúlkur

Ómar Dagbjartsson, til hægri, og Hermann Jónsson, vinur hans, sem …
Ómar Dagbjartsson, til hægri, og Hermann Jónsson, vinur hans, sem kynnti hann fyrir Duran Duran árið 1981, við bútaplaggatið góða úr Pop Rocky.

„Ég keypti miða gegnum aðdáendaklúbbinn og ætla að mæta tímanlega og stilla mér upp fremst við sviðið og fá þetta beint í æð,“ segir Ómar Dagbjartsson, beitingamaður í Bolungarvík, en hann hefur um áratugaskeið verið einn helsti aðdáandi bresku popphljómsveitarinnar Duran Duran á Íslandi og missir að sjálfsögðu ekki af tónleikum hennar í Laugardalshöll á þriðjudaginn.

Ómar verður ekki einn á ferð en nokkrir félagar hans að vestan munu slást í hópinn, auk Marínar, yngri dóttur Ómars, sem vitaskuld hefur alist upp með Duran Duran, eins og eldri systir hennar, Lilja, en þess má geta að Marín varð fimmtán ára 20. júní síðastliðinn sem einnig er afmælisdagur Johns Taylors, bassaleikara Duran Duran. „Hún er mjög stolt af þeirri staðreynd,“ segir faðir hennar og skellir upp úr. 

Ómar á von á sínum mönnum eiturferskum á þriðjudaginn enda mun bandið vera í fínu formi. „Það hefði að vísu verið gaman að fylla stóru Laugardalshöllina en ætli sumum þyki ekki bara nóg að sjá Duran Duran einu sinni,“ segir Ómar og vísar í tónleika þeirra í Egilshöll árið 2005, þar sem mun fleiri mættu til leiks. „Það var mikill sláttur á bönkunum á þeim tíma og þeir voru duglegir að splæsa miðum á viðskiptavini sína.“

Ómar kveðst vera alæta á tónlist og hefur ýmsa listamenn í hávegum. „En ef maður er að baka góða köku þá er Duran Duran rjóminn! Þeir standa hjarta mínu næst.“ 

Fall er fararheill

Hann hefur verið duglegur að sjá bandið á tónleikum gegnum tíðina. Í því sambandi sannast þó hið fornkveðna, að fall sé fararheill. „Ég fór fyrst út til að sjá Duran Duran árið 1992 í Bretlandi. Þetta var fyrir tíma internetsins og ekki eins auðvelt að nálgast upplýsingar og í dag. Fyrir vikið greip ég í tómt. Þegar ég mætti á svæðið hitti ég fyrir tvær tárvotar  unglingsstúlkur í miðasölunni sem tjáðu mér að tónleikunum hefði verið aflýst vegna þess að Simon Le Bon hafði misst röddina á tónleikum í Rotterdam skömmu áður. Það voru mikil vonbrigði.“

Átta ár liðu þangað til Ómar gerði aðra tilraun og þá gekk allt að óskum. Hann fór reyndar á tvenna tónleika í þeirri ferð, í Glasgow og Aberdeen. Þá voru að vísu bara tveir menn eftir í bandinu, téðir Le Bon og Rhoades. „Bandið hljómaði auðvitað aðeins öðruvísi á þessum tíma, var heldur hrárra, en þetta voru samt stórkostlegir tónleikar og loksins rættist draumurinn um að sjá þá „live“.“

Nánar er rætt við Ómar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.



Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert