Við þurfum að tala um þjóðkirkjuna

Munkaþverárkirkja í Eyjafirði.
Munkaþverárkirkja í Eyjafirði. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

„Aðskilnaði ríkis og kirkju hefur verið líkt við hjónaskilnað að borði og sæng, en lögskilnaður eigi eftir að fara fram og það er svona ágætis líking út af fyrir sig,“ segir Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands. Það er margt til í þessari samlíkingu sem Agnes dregur upp og margir sem til hennar líta þegar aðskilnaður ríkis og kirkju er ræddur. Aðrir benda á að ríki og kirkja séu í raun aðskilin vegna kirkjujarðasamkomulagsins sem tók gildi 1. janúar 1998.

 Kirkjan er að mörgu leyti mjög sjálfstæð í sínum innri málefnum, en það er aðeins eitt sem bindur hana við ríkisvaldið, fjármálin. Með kirkjujarðasamkomulaginu var fjárhagur ríkisins og kirkjunnar fléttaður saman. Ríkið innheimtir sóknargjöld, greiðir laun presta, vígslubiskupa og starfsmanna Biskupsstofu og leggur fjármuni í sjóði kirkjunnar. Gegn því lét kirkjan af hendi kirkjujarðirnar að undanskildum prestssetrunum.

Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hin evangelíska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda stendur í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og hefur staðið síðan við fengum fyrstu stjórnarskrána frá frændum okkar Dönum.

Þjóðkirkjan er fjölmennasta trúfélag á Íslandi en um 67 prósent þjóðarinnar eru skráð í hana. Fækkun í þjóðkirkjunni hefur staðið yfir í um 20 ár og ekki sér enn fyrir endann á henni. Árið 1998 voru 89,9 prósent landsmanna skráð í þjóðkirkjuna. Ýmislegt hefur gengið á í gegnum árin og má rekja fækkunina meðal annars til afmarkaðra atvika þar sem kirkjan hefur staðið illa að málum að mati margra. Traust til þjóðkirkjunnar hefur dvínað frá því að mælingar Gallup hófust árið 2001. Það ár sögðust 54 prósent aðspurðra bera mikið traust til þjóðkirkjunnar en árið 2018 voru 30 prósent sem sögðust bera mikið traust til hennar.

„Það hefur orðið aðgreining en ekki aðskilnaður“

Hjalti Hugason, prófessor við guðfræðideild Háskóla Íslands, segir að það standist ekki skoðun að ríki og kirkja séu í raun aðskilin. Þjóðkirkjan nýtur sjálfræðis gagnvart ríkisvaldinu en dóms- og kirkjumálaráðherra fer með samskipti við þjóðkirkjuna fyrir hönd ríkisvaldsins.

„Ég held því fram að það hafi ekki orðið aðskilnaður ríkis og kirkju í þeirri merkingu sem er almennt lögð í það orðalag í kirkjuréttarlegu samhengi. Í mínum huga þýðir aðskilnaður ríkis og kirkju að annaðhvort séu engin tengsl og trúfélög og kirkjurnar séu bara öll sjálfstæð eða þá að það séu að minnsta kosti engin sérstök tengsl á milli ríkisins og einhvers eins trúfélags. Þetta er ekki tilfellið hér, það eru tengsl á milli allra trú- og lífskoðunarfélaga sem hafa þá stöðu að vera skráð og þjóðkirkjan hefur náttúrlega alveg sérstök tengsl við ríkisvaldið, “ segir Hjalti.

Eins og fyrr segir er fjallað um þjóðkirkjuna í stjórnarskránni en einnig eru sérlög um hana. Á grundvelli þessara laga hefur Alþingi mikið um hana að segja að mati Hjalta og þannig er hún mun tengdari ríkisvaldinu en önnur trúfélög í landinu.

Hjalti Hugason prófessor í guðfræði við Háskóla Íslands.
Hjalti Hugason prófessor í guðfræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Margtét Þóra Þórsdóttir

„Það verður að horfast í augu við það að ríkisvaldið gerði þetta sjálft“

Hjalti segir mikla teygju vera í kerfinu að því leyti að kirkjan getur haldið áfram að vaxa frá ríkinu án þess að formlegur aðskilnaður verði. Hann segist aðeins sjá eitt vandamál hvað varðar aðskilnað ríkis og kirkju, það eru fjármálin.

„Það sem er flókið við aðskilnaðinn eru fjármálin því flestar kirkjur hafa haldið eignum sínum og sjálfstæðum tekjustofnum. Íslenska kirkjan, af ýmsum ástæðum, afhenti ríkinu þessar svokölluðu kirkjujarðir og sóknargjöldin sem voru sjálfstæður tekjustofn voru byggð inn í skattkerfið.

Þetta er það mótsagnakennda í þróuninni hér, að þegar verið var að aðgreina kirkju og ríki stofnanalega, þá var fjárhagur þessara fyrirbæra fléttaður saman. Við aðskilnað yrði raunverulega að velta því upp hvernig þessari aðskildu kirkju yrði tryggður einhver viðunandi tekjustofn eftir að ríkið hefur með þessum hætti blandað sér inn í fjármál hennar.

Fjármál kirkjunnar.
Fjármál kirkjunnar.

Það er ekki bara svo að ríkið geti sagt upp kirkjujarðasamkomulaginu og hætt að innheimta sóknargjöldin, heldur má segja að með þessu samkomulagi sem við höfum gert og þessum eignum sem við höfum tekið hafi ríkið bakað sér siðferðislega ábyrgð á þann hátt að það verður eitthvað að koma í staðinn. Það er stærsta spurningin. Það er eiginlega eina vandamálið sem ég sé í þessu.

Ég sé í rauninni engin vandamál við aðskilnað ríkis og kirkju nema á þessu fjárhagslega sviði og þar verðum við að horfast í augu við það að ríkisvaldið gerði þetta sjálft. Þetta var allt gert með lögum og samþykktum á Alþingi og ef það á að fara út úr þessu þá verður bara einhvern veginn að gera dæmið upp á algjörlega nýjan hátt,“ segir Hjalti.

Hjalti segist hafa ákveðið að mynda sér ekki skoðun á því hvort komið sé að aðskilnaði. Hann vill heldur fylgjast með og sjá hvað gerist.

Nán­ar er fjallað um aðskilnað ríkis og kirkju í sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins. Þetta er önnur grein af þrem­ur um þjóðkirkj­una sem birt­ist í sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins. Grein­arn­ar eru meist­ara­verk­efni í blaða- og frétta­mennsku við Há­skóla Íslands. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »