Búast við einstakri stemningu

Roger Taylor og Nick Rhodes.
Roger Taylor og Nick Rhodes. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þeir lofa skemmtun, stuði, óvæntum uppákomum og tónlist af bestu sort í Laugardalshöll annað kvöld. Fjórmenningarnir í Duran Duran eru hingað komnir til að halda tónleika og hlakka til að skemmta íslenskum aðdáendum sínum og rifja upp að á fyrri tónleikum sínum hér hafi verið einstök stemning sem þeir vonast til að endurtaki sig. 

Þeir tónleikar voru árið 2005 og þeir Nick Rhodes, hljómborðsleikari Duran Duran og Roger Taylor trommuleikari settust niður með blaðamanni mbl.is, nýlentir hér á landi, og ræddu um lífið, listina, ferilinn, fyrri heimsókn sveitarinnar hingað til lands og tónleikana sem haldnir verða annað kvöld. Hinir tveir meðlimir hljómsveitarinnar eru Simon Le Bon og John Taylor.

Duran Duran á árum áður.
Duran Duran á árum áður.

„Ójá, ég man heldur betur eftir þessum tónleikum,“ segir Nick. „Ég hef sjaldan spilað fyrir jafn orkumikinn hóp, það var svo mikill kraftur á þessum tónleikum. Við vorum bara í tvo sólarhringa og það var mjög bjart um nóttina. Við Simon (Le Bon, söngvari Duran Duran) vorum forvitnir og fórum á flakk. Einhvernveginn tókst okkur að vaka til klukkan sex um morguninn og við hittum fullt af skemmtilegu fólki. Við fórum ekkert út fyrir Reykjavík, en ætlum svo sannarlega að gera það núna.“ 

„Hvað ætlum við að gera núna?“ spyr Roger sem kemur og sest hjá okkur. Hann biðst afsökunar á rámri rödd sinni, segist hafa fengið einhvern vott af flensu en sé óðum að hressast. „Eins gott að þú ert ekki söngvarinn,“ segir Nick og hlær.

„Við ætlum að skoða okkur um á þessu fallega landi,“ svarar Nick.

„Já. Ójá,“ segir Roger og kinkar kolli. „Síðast heimsókn var mögnuð. Algerlega mögnuð. Ísland er engu líkt og var tekið svo vel á móti okkur síðast. Á þessum tíma vorum við nýlega komnir saman aftur eftir nokkuð hlé.“

„Síðasta heimsókn var mögnuð. Algerlega mögnuð. Ísland er engu líkt …
„Síðasta heimsókn var mögnuð. Algerlega mögnuð. Ísland er engu líkt og það var tekið svo vel á móti okkur síðast,“ segir Roger Taylor trommuleikari Duran Duran mbl.is/Kristinn Magnússon

Þið voruð fimm þá... segir blaðamaður og vísar þar til þess að Andy Taylor, gítarleikari Duran Duran, var þá enn í sveitinni. Hann yfirgaf hana síðan ári síðar. 

„Já, við misstum einn úr hópnum. En okkur gengur ágætlega án hans,“ segir Nick. „Við höldum að hann sé í Noregi. Í dimmasta hluta Noregs,“ skýtur Roger inn í og báðir skella upp úr.

Bjuggust við meiri kulda

Eruð þið búnir að skipuleggja einhver ferðalög hér á landi? „Nei, ég er ekki mikið fyrir að skipuleggja mig,“ svarar Nick. „Mér finnst ekkert gaman að vita hvað er að fara að gerast.“

Báðir segjast hafa átt von á kaldari veðurfari og segja að hlýindin hafi komið þeim þægilega á óvart þegar þeir stigu út úr flugvélinni. „Þetta er eins og enska sumrið,“ segir Roger. 

Duran Duran í dag.
Duran Duran í dag.

Nick segir að þegar sveitin fór í tónleikaferð um heiminn í tilefni af útkomu síðustu plötu sinnar Paper Gods, sem kom út 2015, hafi verið rætt um að hún héldi tónleika hér á landi. Ekkert hafi orðið úr því, skipulagið hafi einfaldlega ekki leyft það. Þegar þeim var síðan boðið að spila á Tinderbox tónlistarhátíðinni, sem verður í Óðinsvéum í Danmörku síðar í þessari viku, hafi þeir strax ákveðið að leggja lykkju á leið sína og koma hingað. „Við erum að gera það vegna þess að okkur langaði svo til að koma aftur,“ segir Nick.

Gott að vera í fötum og með hljóðfæri....

Hvernig undirbúið þið ykkur fyrir tónleika? Eruð þið með einhverjar hefðir, eitthvað sem þið gerið alltaf? 

„Sko... við æfum okkur alltaf,“ svarar Nick og Roger skellir upp úr. „Já, er það,“ segir hann hlæjandi. „Og það er líka gott að ganga úr skugga um að maður muni hvað maður er að fara að gera uppi á sviði.“

„Svo er gott að muna eftir að fara í föt,“ heldur Nick áfram. „Já, og svo þurfum við líka að muna eftir hljóðfærunum,“ segir Roger og hlær. „En að öllu gamni slepptu; við segjum engar bænir fyrir tónleika og erum heldur ekkert alltaf í sömu skónum. Það er engin slík hjátrú hjá okkur.“

Undirbúið þið ykkur öðruvísi fyrir tónleika núna en fyrir t.d. 30 árum? 

„Nei, það held ég ekki,“ svarar Nick. „En það er ekki vegna þess að okkur finnist allir tónleikar eins, síður en svo - þeir eru allir einstakir; mismunandi áhorfendahópur og mismunandi staðir og það er það sem gerir þetta starf svo skemmtilegt. Við erum aldrei með sama prógrammið og við munum ekki ákveða fyrr en á morgun hvað við spilum annað kvöld.“

„Við erum auðvitað með svo gríðarlega mörg lög á efnisskránni eftir allan þennan tíma. Við höfum úr svo miklu að velja,“ segir Roger.

Tónleikar eru eins og ferðalag

Hvaða lög spilið þið á öllum tónleikum? 

„Ég er ekki viss um að eitthvert lag sé spilað á öllum tónleikunum okkar, en ég held að við spilum Rio (af samnefndri plötu sem kom út árið 1982) nánast alltaf,“ svarar Nick. „Kannski er kominn tími á að gefa því smáfrí. Leyfa laginu að hvíla sig, taka það svo upp aftur eftir einhvern tíma og þá er það orðið ferskt aftur.“

En þið ætlið að spila Rio annað kvöld, er það ekki? spyr blaðamaður vongóður sem langar mjög til að heyra lagið. „Langar þig til að heyra það,“ spyr Roger. „Ef svo, þá skulum við spila það.“

Roger Taylor og Nick Rhodes.
Roger Taylor og Nick Rhodes. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég lít á tónleika eins og ferðalag. Ferðalag sem við erum að fara með tónleikagesti í. Tónleikar eiga að vera upplifun, eitthvað sem fólk man lengi eftir. Sumir muna eftir tónleikum alla sína ævi og það er vegna þess að þar hafa einhverjir töfrar átt sér stað,“ segir Nick.

Eru einhverjir tónleikar sem eru þér minnisstæðari en aðrir? 

„Já, heldur betur. Til dæmis margir tónleikar með David Bowie. Líka með Roxy Music og ég man eftir mögnuðum tónleikum með Prince seint á 9. áratugnum. Kate Bush og Kraftwerk koma líka upp í hugann,“ svarar Nick.

„Já, ég segi það sama um Kraftwerk,“ segir Roger. „Ég gleymi aldrei tónleikum sem ég fór á með þeim í Birmingham árið 1976. „Ég fór stundum með strætó í bæinn og athugaði hvaða hljómsveitir voru að spila í klúbbunum. Ég sá Kraftwerk auglýst, ég hafði heyrt í þeim í útvarpinu og vissi að þetta var þýsk raftónlist. Ég mætti snemma, fékk pláss upp við sviðið og þetta voru magnaðir tónleikar. Sem ég gleymi aldrei.“

Eins og fjölskylda

Duran Duran var stofnuð árið 1978. Spurðir hvort þeir verði aldrei þreyttir hvor á öðrum eftir allan þennan tíma segja þeir að það hafi vissulega gerst áður fyrr. „En þegar fólk hefur unnið svona lengi saman finnur það einfaldlega leiðir til að það gangi sem best. Maður heyrir oft af hljómsveitum þar sem samkomulagið er slæmt, stundum eru slíkar sögur líka búnar til,“ svarar Roger.

Nick Rhodes.
Nick Rhodes. Kristinn Magnússon

„En það reyndi vissulega meira á samstarfið í byrjun,“ segir Nick. „En núna.... núna erum við eins og fjölskylda. Við umberum öll skringilegheitin hvor hjá öðrum, en við höfðum minna umburðarlyndi áður.“ 

Hefði ykkur órað fyrir því í byrjun að þið yrðuð enn að rúmum 40 árum síðar? 

„Nei, eiginlega ekki,“ svarar Nick. „Það er alger undantekning að hljómsveit starfi svona lengi saman eins og við höfum gert. 

Gott að setja sér markmið

Hafið þið einhverjar væntingar fyrir tónleikana annað kvöld? „Ekki aðrar en þær að tónleikagestir verði jafn skemmtilegir og á síðustu tónleikunum okkar hér. Það er ekki hægt að biðja um meira,“ svarar Roger.

„Einhver sagði við mig áðan að það væru 14 ár síðan við vorum hérna síðast,“ segir Nick. „Mér finnst tíminn líða ótrúlega hratt, það er eins og þetta hafi verið í fyrra. Ef við látum jafn langt líða fram að næstu tónleikum þá komum við næst árið 2033.“

Roger Taylor.
Roger Taylor. Kristinn Magnússon

„Já, hvers vegna ekki?“ stingur Roger upp á. „Gerum það - það er gott að setja sér markmið! En ég væri líka alveg til í að koma fyrr en það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert