„Erfiðasta ætt flugna að rannsaka“

Hrúga af lúsmýi. Sýni lúsmýs úr gildru í Kollafirði 18. …
Hrúga af lúsmýi. Sýni lúsmýs úr gildru í Kollafirði 18. júní 2019. Ljósmynd/Erling Ólafsson

„Þetta er erfiðasta ætt flugna að rannsaka,“ segir Erling Ólafsson, skordýrafræðingur Náttúrufræðistofnunar Íslands, um lúsmý. Hann er sannfærður um að lúsmý sé ekki nýr landnemi á Íslandi og telur það hafa verið hér að minnsta kosti í nokkra áratugi. 

„Ég man eftir spjalli við fólk í sumarhúsum í kringum 1980 sem var illa bitið. Þá var maður  að reyna að kenna öðru um en þessu því þetta var ekki þekkt. Maður var með óbragð á tungu að reyna að kenna flóm eða bitmýi um en það var ekki hægt að gera annað því maður gerði sér ekki grein fyrir þessum möguleika,“ rifjar Erling upp. 

Erling Ólafsson skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.
Erling Ólafsson skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Menn forðast að fórna tíma sínum í þetta“ 

Þegar hlýnar í veðri verður sprenging í þessu, segir Erling en bætir fljótt við að þetta séu getgátur og kenningar því engar sannanir liggja fyrir. Ástæðan er sú að lúsmý tilheyrir ætt flugna sem er illa þekkt á heimsvísu. „Lúsmý er erfitt í greiningum. Það er eiginlega enginn sem veldur því almennilega að greina þetta. Menn eru að fikra sig áfram. Þetta er erfiðasta ætt flugna að rannsaka jafnmikilvæg og hún er. Ef þetta væri einfaldara væru fleiri í þessu. Menn forðast að fórna tíma sínum í þetta,“ segir Erling og klykkir út með því að segja „þetta er gat. Þetta eru þannig fræði.“ 

Hægt er að staðfesta að lúsmý finnist helst á suðvesturhluta landsins eins og sjá má í ítarlegri greinagerða á vef Náttúrufræðistofnun Íslands sem Erling vann ásamt Matthíasi Alfreðssyni 19. júní síðastliðinn. 

Erling er og hefur verið helsti skordýrafræðingur landsins. Í byrjun júnímánaðar þegar fjölmargir tóku að birta myndir af sér á samfélagsmiðlum útsteyptum af bitum byrjuðu landsmenn að herja á Erling og fyrirspurnum um óværuna rigndi yfir hann.  

Lokaði sig af fyrir fjölmiðlum til að fá næði

„Strax eftir sautjánda fylltist síminn minn af fyrirspurnum. Hringingarnar gengu allan daginn frá fjölmiðlum svo ég ákvað að slökkva á símanum. Þetta gekk ekki,“ segir Erling um fjölmiðlafárið. Þrátt fyrir talsverðar annir í öðrum verkefnum ákvað hann að loka sig af og setja saman fyrrgreindan pistil um lúsmý þar sem öll vitneskjan um lúsmý á Íslandi hefur verið safnað saman. 

Þar kemur meðal annars fram að lúsmýið er að finna helst í innsveitum og síður með sjónum þar sem gjarnan er meiri vindur. Lúsmý hefur verið að breiða úr sér um landið einkum í innsveitum. Myndin sumarið 2019 er í mótun en lúsmý hefur verið aðgangsharðara um miðjan júní en fyrri ár. Þar á einstök veðurblíða sem ríkt hefur á útbreiðslusvæði mýsins ríkan þátt í máli.“ Þetta kemur fram í pistlinum. 

Svona lítur lúsmý út.
Svona lítur lúsmý út. Ljósmynd/Erling Ólafsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert