Fagnar lífsmarki FME

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, undrast viðbragðshraða Fjármálaeftirlitsins.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, undrast viðbragðshraða Fjármálaeftirlitsins. Hanna Andrésdóttir

„Ég undrast þennan mikla viðbragðshraða miðað við margt annað sem hefur verið í gangi í okkar samfélagi, sérstaklega hvað varðar fjárfestingar lífeyrissjóðanna,“ svarar Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, er leitað er viðbragða við því að Fjármálaeftirlitið (FME) hafi til skoðunar ákvörðun fulltrúaráðs VR um að afturkalla umboð stjórnarmanna í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LV).

Spurður hvað hann telji liggja að baki meintum viðbragðshraða FME svarar Ragnar Þór: „Ég ætla ekki að draga neinar ályktanir af því, en ég fagna því að það sé eitthvert lífsmark þar að finna.“

„Við fórum í þetta að mjög íhuguðu máli,“ segir formaðurinn. Þá segir hann að aðgerðin sé lögmæt og að félagið hafi ráðfært sig við lögfræðinga VR.

Hann bendir á að félagið hafi fengið í hendur greinargerð frá stjórn LV til þess að skýra ákvörðun stjórnarinnar um að aftengja vexti á verðtryggðum lánum með breytilegum vöxtum frá ákveðnum skuldabréfaflokki og hækka vextina, en sú ákvörðun varð til þess að ákveðið var að afturkalla umboð stjórnarmannanna.

„Við gerðum athugasemdir við þessar skýringar, fannst þessi rök þeirra ekki standast neina skoðun og voru ekki fullnægjandi skýring á því að sjóðurinn hafi ákveðið að fara þessa leið.“

„Nú er það líka hlutverk FME að verja hag neytenda, það er lögbundið hlutverk þeirra,“ segir Ragnar Þór og kveðst hafa vitneskju um að einstaklingar hafi kvartað til Neytendastofu vegna vaxtahækkunarákvörðunar stjórnar LV.

mbl.is

Bloggað um fréttina