„Leitar þú að banka?“

Villuráfandi ferðamönnum er gert ljóst strax í anddyri dómstólsins að …
Villuráfandi ferðamönnum er gert ljóst strax í anddyri dómstólsins að séu þeir í leit að banka séu þeir á röngum stað. mbl.is/Arnar Þór

Skilti hefur verið komið upp í anddyri Héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem tekið er skilmerkilega fram á enskri tungu að næsta banka megi finna aðeins neðar í Austurstræti. Þetta er gert til þess að fækka óþarfa afgreiðslum starfsmanna dómstólsins.

Halla Jónsdóttir, mannauðs- og rekstrarstjóri dómstólsins, segir í samtali við mbl.is að skiltið hafi verið sett upp í síðustu viku.

„Það var svona orðið eitt af tækifærunum okkar til þess að fækka komum ferðamanna í afgreiðsluna hjá okkur, að benda þeim bara beint á það hvar bankinn er, þetta er nú bara næsta horn,“ segir Halla.

Hún vill ekki meina að tíðar komur ferðamanna í dómshúsið í bankaleit hafi truflað starfsmenn dómstólsins mikið: „Þetta er nú ekkert dramatískt,“ segir Halla og bætir við aðspurð að ekki sé komin reynsla á það hvort uppsetning skiltisins muni hafa þau tilætluðu áhrif að fækka komum ferðamanna í húsið.

mbl.is