Meðferð fyrir karla og konur sem beita ofbeldi

Andrés Proppé Ragnarsson sálfræðingur og Ásmundur Einar Daðason félags- og …
Andrés Proppé Ragnarsson sálfræðingur og Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Skrifað var undir samstarfssamning félagsmálaráðuneytisins og Heimilisfriðar í dag. Heimilisfriður er meðferðarúrræði fyrir einstaklinga sem beita ofbeldi í nánum samböndum. Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra og Andrés Proppé Ragnarsson sálfræðingur skrifuðu undir samninginn. 

„Með samningnum vill ráðuneytið tryggja sérhæfða sálfræðiþjónustu fyrir konur og karla sem beitt hafa maka sína ofbeldi. Úrræðið hefur staðið til boða um árabil á grundvelli samnings við stjórnvöld og gekk áður undir nafninu Karlar til ábyrgðar.“ Þetta kemur fram í frétt á vef stjórnarráðs Íslands. 

Gildistími samningsins er eitt ár.

„Hjá Heimilisfriði geta gerendur, karlar og konur, sótt sálfræðimeðferð og er ýmist boðið upp á einstaklingsviðtöl eða hópmeðferðir. Þjónustunni er ætlað að draga úr líkum á frekari ofbeldishegðun með því að veita skjólstæðingum aðstoð við að þróa leiðir til að takast á uppbyggilegan hátt við ágreining og erfiðleika í samskiptum.“ Þetta segir ennfremur í tilkynningu. 

Í meðferðinni er meðal annars lagt áhersla á að viðkomandi þiggi aðstoð af fúsum og frjálsum vilja sem og að gerendur viðurkenni ábyrgð á hegðun sinni. 

mbl.is