Opnuðu nýja verslun í Árneshreppi

Sigurður Ingi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra opnaði nýja verslun í Árneshreppi …
Sigurður Ingi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra opnaði nýja verslun í Árneshreppi í dag. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Verslun Verzlunarfjelags Árneshrepps á Ströndum var opnuð í dag af Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Fékk Verzlunarfjelagið verkefnastyrk á grundvelli byggðaráætlunar, en styrkir sem slíkir eru veittir til að efla verslun í strjálbýli.

Síðastliðið haust hættu fyrri eigendur rekstri verslunar í Árneshreppi og eftir áramót hófst vinna að stofnun nýs félags sem stofnað var 1. febrúar. Samkvæmt tilkynningu á vef Stjórnarráðsins eru hluthafar í nýja félaginu 138 og er hlutafé á sjöttu milljón.

Í ávarpi sínu við opnunina sagði Sigurður Ingi að sér þætti ánægjulegt að vera viðstaddur og að „mörg hjörtu slái með Árneshreppi“.

Verkefnastyrkurinn sem Verzlunarfjelagið hlaut nemur 7,2 milljónum króna yfir þriggja ára tímabil, eða 2,4 milljónum árlega frá og með 2019. Verslunarrekendum á tilteknum stöðum í strjálbýli eru veittir styrkir af þessu tagi til að skjóta frekari stoðum undir verslun, meðal annars með samspili við aðra þjónustu.

„Verslun er mikilvæg fyrir öll samfélög og einn þátturinn er að í versluninni kemur fólk saman og spjallar um daginn og veginn og eflir þannig tengslin sem nauðsynleg eru,“ sagði Sigurður Ingi við opnunina í dag. mbl.is