Skjálfti af stærðinni 4,1 í Bárðarbungu

Skjálfti af stærðinni 4,1 reið yfir við Bárðarbungu í Vatnajökli …
Skjálfti af stærðinni 4,1 reið yfir við Bárðarbungu í Vatnajökli kl. 13:55. mbl.is/RAX

Þrír jarðskjálftar yfir þremur að stærð mældust í Bárðarbungu í Vatnajökli á milli klukkan 13 og 14 í dag, sá stærsti 4,1 að stærð samkvæmt mælingum á vef Veðurstofu Íslands. Hann reið yfir kl. 13:55.

Hinir skjálftarnir tveir voru 3,3 og 3,4 að stærð og mældust kl. 13:09 og 13:18. Allir voru þeir í norðvestanverðri Bárðarbunguöskjunni.

Samkvæmt tilkynningu á vef Veðurstofunnar hafa nokkrir minni eftirskjálftar orðið, en enginn gosóri mælist.

Þetta er stærsti skjálftinn sem orðið hefur í Bárðarbungu frá því 23. febrúar síðastliðinn. Þá mældist skjálfti í norðanverðri öskjunni 4,2 að stærð. Skjálfti af stærðinni 4,8 reið yfir í Bárðarbungu 28. desember síðastliðinn.

Kvikuhreyfingar taldar valda skjálftunum

„Frá goslokum í febrúar 2015 hafa komið reglulega skjálftar af stærð M3 eða stærri í Bárðarbunguöskjunni og er talið að þá megi rekja til kvikuhreyfinga undir botni öskjunnar sem seig um tugi metra á meðan á gosi stóð,“ segir í tilkynningu á Facebook-síðu Veðurstofunnar.

„Eftir goslok hefur kvikuflæði inn undir öskjuna hafist að nýju þar sem botn öskjunnar lyftist upp með tilheyrandi jarðskjálftavirkni.“

mbl.is