143 milljóna sekt vegna skattsvika

Maðurinn er sakfelldur fyrir að hafa vantalið tekjur upp á …
Maðurinn er sakfelldur fyrir að hafa vantalið tekjur upp á 252 milljónir króna árin 2010 og 2011. mbl.is/Ómar Óskarsson

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í 18 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skattalagabrot. Þá er honum gert að greiða rúmar 143 milljónir króna í sekt eða sæta ellegar eins árs fangelsi. Héraðssaksóknari gaf út ákæruna í mars síðastliðnum.

Maðurinn, Ólafur Helgi Þorgrímsson, var stjórnandi og prókúruhafi einkahlutafélagsins Ævintýrareisur (síðar Boðrás). Fyrirtækið, sem sinnti ferðaþjónustu, var lýst gjaldþrota í lok árs 2013 og var ferðaskrifstofuleyfi þess afturkallað í desember sama ár.

Hann er dæmdur fyrir að hafa kerfisbundið vantalið tekjuskattsstofna fyrirtækisins um 252 milljónir króna árin 2010 og 2011, og með því komið félaginu undan greiðslu tæpra 48 milljóna króna í tekjuskatt.

Í dómi héraðsdóms, sem féll 19. júní en var birtur í dag, segir að brotin séu stórfelld og þyki ekki unnt að takmarka sektarfjárhæð við lögbundið lágmark. Ákærði kom fyrir dóm og játaði sök samkvæmt ákæru. Sagðist hann fyrir dómi hafa snúið við blaðinu og rekstur hans væri nú í góðu lagi, þar sem sérfróður aðili sinnti nú bókhaldi.

mbl.is