Ætlar að sjá hvert námið leiðir sig

Hugi Kjartansson í Háskóla Íslands í dag.
Hugi Kjartansson í Háskóla Íslands í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hugi Kjartansson var semidúx við brautskráningu frá Menntaskólanum við Hamrahlíð um síðustu áramót. Söngur og tónlist hefur alltaf skipað stóran sess í lífi hans og er hann til að mynda nýlega kominn heim frá New York þar sem hann söng með Björk Guðmundsdóttur söngkonu. 

Hugi er einn þeirra 29 afreksnema úr þrettán framhaldsskólum um allt land sem tóku í dag við styrkjum úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands. Styrkþegarnir hafa allir náð framúrskarandi árangri á stúdentsprófi, en einnig er horft til annarra þátta eins og virkni í félagsstörfum, íþróttum og listum við mat á styrkþegum. Þá eiga styrkþegarnir það sameiginlegt að hafa innritað sig til náms við Háskólann í haust. 

Hugi hyggst hefja nám í íslensku næsta haust og segir áhugann lengi hafa verið til staðar. 

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á íslensku. Svo þegar ég byrjaði í MH varð þetta eitthvað sem ég myndi vilja læra í háskóla,“ segir Hugi. Hann segist ekki hafa ákveðið hvaða atvinnu hann vilji leggja fyrir sig að námi loknu, en að hann hlakkar til að sjá hvert námið leiði sig. 

Hugi ásamt rektor HÍ.
Hugi ásamt rektor HÍ. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tónlistin er ástríðan

Hugi hefur æft söng í sjö ár og lokið 6. stigi í söng frá Söngskólanum í Reykjavík auk þess sem hann leggur stund á píanónám. Hann segir tónlist yfir höfuð vera ástríðu sína en að söngurinn hafi skapað sér alveg sérstakan sess í lífi sínu. 

„Það er svo gott að nálgast tónlistina út frá söng, það er mjög aðgengilegt.“

Hugi var í Kór Menntaskólans við Hamrahlíð og síðar Hamrahlíðarkórnum og er sem áður segir nýkominn heim frá New York í Bandaríkjunum þar sem hann söng með hinni heimsfrægu Björk. 

„Við í Hamrahlíðakórnum fórum til New York að taka þátt í Cornucopia hennar Bjarkar sem er svona tónleikaröð í nýju tónlistarhúsi sem heitir The Shed. Við vorum með svona fortónleika á undan henni og tókum svo þátt í prógramminu hennar,“ segir Hugi og bætir við að reynslan hafi bæði verið ógleymanleg og skemmtileg. 

Afreksnemarnir sem tóku við styrkjum í dag.
Afreksnemarnir sem tóku við styrkjum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hugi segir það hafa verið ákveðið púsluspil að finna jafnvægið á milli tónlistarinnar og námsins, en að svo lengi sem hægt sé að skipuleggja sig vel getur allt gengið upp. Hann segir Menntaskólann í Hamrahlíð veita einstaklega góðan stuðning við nemendur í tónlist og öðrum listgreinum og það hafi einfaldað skólagönguna töluvert. 

„Þau meta tónlistina inn í námið manns og maður getur fengið einingar fyrir og svona.“

Aðspurður hvað Hugi hyggst gera við styrkinn úr Afrekssjóðinum segist hann ekki hafa hugsað svo langt. „Aðallega ætla ég bara að nota hann til að framfleyta mér þetta næsta ár. Ég hef ekki hugsað það neitt lengra en það kemur örugglega bara í ljós.“

Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, við athöfnina í dag.
Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, við athöfnina í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert