Miðlar 40 ára reynslu

Einar Kárason rithöfundur.
Einar Kárason rithöfundur. Ljósmynd/Aðsend

Námskeið þar sem Einar Kárason rithöfundur miðlar reynslu sinni af því hvernig skrifa eigi bók, opnaði fyrir skráningu í gær. Námskeiðið, sem fyrirtækið Frami býður upp á, fer fram á netinu og er fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.

Einar hefur gefið út fjölda metsölubóka á síðustu 40 árum, meðal annars skáldsöguna Þar sem djöflaeyjan rís og Ofsa sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2008.

Fyrir alla sem vilja skrifa

„Það er auðvitað eitt og annað sem maður hefur lært við það að vera í þessu í 40 ár,“ segir Einar í samtali við Morgunblaðið.

Hann segir námskeiðið koma inn á margar merkilegar hliðar bókaskrifa, meðal annars sé farið yfir það hvernig best sé að velja sjónarhorn, byggja upp sögu og hvað best sé að leggja áherslu á við persónusköpun. „Námskeiðið er fyrir alla þá sem hafa áhuga á því að skrifa einhvers konar skáldskap. Til dæmis byrjendur sem vilja leita ráða hjá einhverjum með meiri reynslu,“ segir Einar.

Best að hætta þegar vel gengur

Hann segist sjálfur hafa uppgötvað ýmislegt við undirbúning námskeiðsins sem hann hafði ekki gert sér grein fyrir að hann vissi og gæti miðlað áfram. „Þó maður sé kominn með þetta mikla reynslu er maður enn stundum að kljást við sömu vandamálin. Til dæmis í byrjun allra verka gengur maður í gegnum krísutímabil þar sem maður heldur að þetta sé ómögulegt hjá sér. En maður hefur lært hvernig hægt er að komast yfir það og láta það ekki stoppa sig,“ segir Einar.

Ritstífla segir hann að sé algengt vandamál og vitnar í bandaríka rithöfundinn Ernest Hemingway þegar hann segir: „Til þess að forðast að lenda í svoleiðis eiga menn alltaf að hætta og ljúka vinnudegi þegar það gengur vel. Ekki tæma sig heldur vita nákvæmlega hvar maður byrjar daginn eftir. Þá er maður í flæðinu. Það snarvirkar. Þetta eru svona trix sem við förum í gegnum á námskeiðinu.“ Einar segist sjálfur hafa frábæra reynslu af netnámskeiðum en viðurkennir að honum hafi þótt kerfið skrýtið fyrst.

„Svo sá ég hver meginkosturinn við þetta er. Til dæmis ef maður missir athyglina eða er truflaður þá setur maður bara á stopp og ef maður nær ekki því sem kennarinn sagði bakkar maður bara. Ég hugsaði með mér: Þetta er alveg brilljant. Mér hefði gengið miklu betur í menntaskóla ef ég hefði verið í svona kerfi,“ segir Einar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »