Míla braut ekki gegn Gagnaveitunni

Í upphaflega úrskurðinum kom fram að Míla hefði ekki gefið …
Í upphaflega úrskurðinum kom fram að Míla hefði ekki gefið Gagnaveitunni kost á að nýta framkvæmdina þegar lagðar voru fjarskiptalagnir í Hafnarfirði.

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur fellt úr gildi hluta ákvörðunar Póst- og fjarskiptastofnunar í máli Gagnaveitu Reykjavíkur gegn Mílu.

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) úrskurðaði í fyrra að Míla ehf. hefði brotið gegn þeirri kvöð að birta lista yfir fyrirhugaðar jarðvegs- og lagnaframkvæmdir áður en fyrirtækið réðst í framkvæmdir í Lækjarbergi, Móbergi, Skálabergi og Sólbergi í Hafnarfirði annars vegar, og í Úthlíð, Steinahlíð, Brekkuhlíð og Stekkjarbergi hins vegar, sem og fyrir að veita ekki ítarlegri upplýsingar í fyrrnefndu götunum.

Þá hefði Míla ehf. brotið gegn ákvæðum aðgangs- og jafnræðiskvaðar með því að veita Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. (GR) ekki aðgang í heimtaugarör sín í Lækjarbergi, Móbergi, Skálabergi og Sólbergi og gæta ekki jafnræðis milli tengdra og ótengdra aðila, sbr. 3. mgr. ákvörðunarorða PFS.

Úrskurðarnefndin taldi að orðalag kvaðarinnar um að birta lista yfir fyrirhugaðar jarðvegs- og lagnaframkvæmdir skuli ekki túlka með jafnvíðum hætti og PFS gerði.

Þá taldi nefndin að samskipti Mílu og Gagnaveitunnar hefðu verið það óskýr að ekki sé hægt að komast að þeirri niðurstöðu að Míla hafi í reynd neitað að veita ítarlegri upplýsingar um fyrirhugaðar framkvæmdir í Lækjarbergi, Móbergi, Skálabergi og Sólbergi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert