Varar við áfengisneyslu í hitabylgjunni

Alma D. Möller landlæknir varar Íslendinga við hitanum í Evrópu …
Alma D. Möller landlæknir varar Íslendinga við hitanum í Evrópu og segir áfengi og hita slæma blöndu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landlæknir segir að þeir sem ætli að leggja land undir fót eða séu staddir á meginlandi Evrópu núna þegar hitabylgju er spáð, ættu að drekka vel af vökva, en þó ekki áfenga drykki, enda séu áfengi og hiti slæm blanda, þar sem alkóhól sé þvagmyndandi og geti enn aukið á vökvatap af sól og hita.

Þetta kemur fram í færslu sem undirrituð er af Ölmu D. Möller landlækni á vef embættis landlæknis.

„Í miklum lofthita eykst svitamyndum og vökvatap verður mikið og því meiri hætta á ofþornun,“ segir landlæknir og bætir við að aldraðir og ung börn séu í aukinni áhættu hvað þetta varðar.

Landlæknir minnir jafnframt á að í jafn miklum hita og spáð er í Evrópu á næstu dögum sé „mikilvægt að fara sér hægt, leita í skugga og halda sig innandyra þegar hitastigið nær hæstu hæðum yfir daginn.“ Þá sé einnig mikilvægt að muna eftir sólarvörn og sólhatti þegar sól er sterk.

Maður kælir sig niður í gosbrunni í París í gær. …
Maður kælir sig niður í gosbrunni í París í gær. Þar er búist við því að hitinn fari hátt í 40 gráður er líða tekur á vikuna. AFP
mbl.is