Ákærði með hæðispersónuleikaröskun

Ekkert bendir til þess að maðurinn sé ósakhæfur, samkvæmt mati …
Ekkert bendir til þess að maðurinn sé ósakhæfur, samkvæmt mati sálfræðinga. mbl.is/Eggert

Maðurinn sem ákærður er fyrir manndráp vegna brunans við Kirkjuveg á Selfossi í október sagði í samtali sínu við sálfræðing að hann hefði kveikt í gardínum hússins, en var þó „mjög efins um alla atburðarás“. Þetta er á meðal þess sem kom fram við framhald aðalmeðferðar málsins í dag.

Ekkert bendir til þess að maðurinn sé ósakhæfur, samkvæmt mati sálfræðinga, en hann hafði verið í gríðarlegri áfengisneyslu í tvö ár og mjög sveiflóttur á geði í aðdraganda þess að hann kveikti í húsinu. Hann „vill engum illt gjöra og tekur á sig alla ábyrgð á þessu,“ sagði sálfræðingur sem annaðist mat á honum.

Tveir sálfræðingar sem komu fyrir dóminn hér á Selfossi í dag sögðu að maðurinn væri þannig gerður að upplagi að hann ætti erfitt með að segja nei við aðra og taka sjálfstæðar ákvarðanir, vegna svokallaðrar hæðispersónuleikaröskunar. Annar þeirra sagði að það vekti upp þá spurningu, hvort hann væri einn að taka á sig alla sök í málinu.

Sálfræðingurinn sagði alltaf ákveðna hættu á því að einstaklingar sem séu með þessa persónuleikaröskun taki á sig hluti sem þeir hafi ekki gert, sérstaklega ef þeir muni illa eftir atvikum.

Einnig kom fram í máli sálfræðingsins að ákærði hefði verið mjög hræddur um að honum „yrði kálað“ eftir atvikið og að hann hefði óttast það mjög að fara á Litla-Hraun, en fram hefur komið í máli annarra vitna hér við aðalmeðferð málsins að konan, sem einnig er ákærð í málinu, hafi hótað manninum því að synir hennar myndu beita hann ofbeldi, færi hann ekki að vilja hennar.

Virtist ekki með „fulle fem“

Lögreglukona, sem var á meðal þeirra fyrstu á vettvang brunans við Kirkjuveg á Selfossi á síðasta degi októbermánaðar, sagði að maðurinn hefði talað eins og hann vissi að það væri fólk í húsinu, eftir að viðbragsaðilar komu á staðinn.

Fyrst um sinn hefði þó verið eins og hann hefði ekki gert sér grein fyrir því, sagði lögreglukonan, en þegar hún kom á staðinn var mikill eldur í húsinu og mikinn dökkan reyk lagði upp frá því. Það sem greip hana þó meira var hávaði í fólkinu sem ákært er í málinu, þar sem þau stóðu fyrir utan húsið „öskrandi á hvort annað“.

Samkvæmt frásögn lögreglukonunnar var konan, sem ákærð er í málinu fyrir að gera ekki það sem í hennar valdi stóð til þess að vara þau tvö sem létust við eldsvoðanum, að öskra á manninn að hann væri morðingi. Ástand þeirra beggja hefði verið „slæmt“ og ákærði hefði ekki virst vera með „fulle fem“.

Í kjölfarið og eftir því sem að viðbragðsaðilum fjölgaði á vettvangi brunans, hefði maðurinn þó byrjað að spyrja bæði sjálfan sig og hana, þar sem þau sátu inni í lögreglubíl, hvort að hann væri morðingi, hvort að hann væri „með mannslíf á höndunum“, hvað væri að gerast og hvort að þau tvö sem voru á efri hæð timburhússins væru látin.

Þegar á leið, sagði lögreglukonan, hætti maðurinn þó að spyrja og hóf að fullyrða að hann væri morðingi og að hann væri „með mannslíf á höndunum“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert