Andlát: Ásgeir Pétursson sýslumaður og bæjarfógeti

Ásgeir Pétursson
Ásgeir Pétursson

Ásgeir Pétursson, fyrrverandi sýslumaður í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu og bæjarfógeti í Kópavogi, lést 24. júní sl. á 98. aldursári.

Ásgeir fæddist 21. mars 1922 í Reykjavík. Foreldrar hans voru hjónin Pétur Magnússon, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, alþingismaður og ráðherra, og Þórunn Ingibjörg Guðmundsdóttir. Þau bjuggu á Hólavöllum við Suðurgötu þar sem Ásgeir ólst upp í hópi átta systkina.

Ásgeir lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1950 og lagði stund á framhaldsnám á sviði fjárlagagerðar og stjórnarfarsréttar við Berkeley-háskóla í Kaliforníu í Bandaríkjunum veturinn 1952-1953.

Hann kvæntist Sigrúnu Hannesdóttur 1946 og eignuðust þau fjögur börn, Guðrúnu, Ingibjörgu, Sigríði og Pétur. Sigrún lést 2006. Barnabörn og barnabarnabörn Ásgeirs og Sigrúnar eru 15 talsins.

Ásgeir var formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, 1950-1952 og formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) 1955-1957. Á árunum 1951-1961 starfaði hann í forsætis- og menntamálaráðuneytinu sem fulltrúi, deildarstjóri og sem aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar menntamálaráðherra árin 1953-1956.

Á löngum ferli gegndi Ásgeir ýmsum trúnaðarstörfum. Hann var formaður Náttúrverndarráðs Íslands 1956-1960 og stjórnarformaður Sementsverksmiðju ríkisins lengst af á árunum 1959-1989. Sem sýslumaður Borgfirðinga beitti hann sér m.a. fyrir stofnun Tónlistarfélags Borgarfjarðar, var formaður byggingarnefndar Dvalarheimilis aldraðra í Borgarnesi og síðar formaður stjórnar þess á árunum 1962-1978. Hann tók oft sæti á Alþingi sem varaþingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn á árunum 1964-1972 og kom að mörgum landsmálum svo sem stofnun Tækniskóla Íslands og Ríkisendurskoðunar og að undirbúningi að gerð Borgarfjarðarbrúar.

Ásgeir var bæjarfógeti í Kópavogi frá árinu 1979 uns hann lét af störfum 1992.

Að loknum embættisferli var hann formaður orðunefndar 1996-2001 og árið 2006, er Ásgeir var 84 ára, gaf hann út bókina Haustliti sem hefur að geyma minningar um ýmsa þætti úr lífi hans og kynni af mönnum og málefnum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »