„Bara hjóla hratt og stoppa ekki“

Chris Burkard á leiðinni yfir Öxi.
Chris Burkard á leiðinni yfir Öxi. Ljósmynd/Óskar Páll Sveinsson

„Hann var með nóg að drekka og nóg að borða með sér á hjólinu og var búinn að ákveða að reyna að hjóla eins lengi án þess að stoppa og hann gæti. Ég spurði hann áðan þegar við vorum komin á Egilsstaði, að gamni, hver væri nú lykillinn að því að ná að hjóla til Egilsstaða undir 24 tímum,“ segir Óskar Páll Sveinsson sem fylgir Bandaríkjamanninum Chris Burkard í WOW Cyclothon.

Svar Burkard var ósköp einfalt: „Það er bara að hjóla hratt og stoppa ekki.“

Burkard er einn þriggja keppenda í einstaklingskeppni WOW Cyclothon þetta árið og hefur talsverða forystu á keppinauta sína, þau Eirík Inga Jóhannsson og Terri Huebler.

Burkard og félagar voru að nálgast Öxi þegar blaðakona heyrði í Óskari, en hjólakappinn tók sitt fyrsta almennilega stopp á Egilsstöðum fyrr í kvöld. „Hann stoppaði í um 20 mínútur, en stoppaði ekkert á milli Reykjavíkur og Egilsstaða nema að ég held tvisvar til að pissa,“ útskýrir Óskar.

Hér má sjá glytta í Eirík rétt fyrir utan Akureyri …
Hér má sjá glytta í Eirík rétt fyrir utan Akureyri í dag. mbl.is/Þorgeir

Aðspurður hvort Burkard sé ekki að sprengja sig segir Óskar að fylgdarsveinarnir hafi að sjálfsögðu smá áhyggjur af því, en að honum líði vel og sé enn brosandi og hlæjandi og hafi æft gríðarlega vel fyrir keppnina.

„Hann virðist vera að gera þetta vel en er náttúrulega farinn að þreytast í líkamanum. Þetta er álag á ákveðna líkamsparta og það segir til sín, en eins og staðan er núna er hann ennþá bara í fínu formi þó ótrúlegt sé.“

Nái Burkard að halda dampi er ekki ólíklegt að hann slái brautarmet í keppninni, en að sögn Óskars er hann mikill áhugamaður um Ísland og hefur komið hingað í fjölmörg skipti til að ljósmynda og ætlar að gefa út bók um íslenskar jökulár í haust.

„Hann þekkir land og þjóð mjög vel. Hann er búinn að tala um þetta lengi að taka þátt í WOWinu og svo hringdi hann í mig í vor og spurði hvort ég væri til í að rúlla þetta með honum. Ég hélt það nú,“ segir Óskar að lokum, en hann er sjálfur heimildamyndabransanum og kynntist Burkard í gegnum fagið. Hægt er að fylgjast með ferðalagi Burkard á Instagram, en þess má geta að hann hefur þar rúmar 3,4 milljónir fylgjenda.

Freistar þess að verða önnur konan til að klára

En Burkard er ekki eini Bandaríkjamaðurinn í einstaklingskeppninni þetta árið, því ævintýrakonan Terri Huebler frá Alaska freistar þess að verða önnur konan til þess að klára einstaklingskeppni WOW Cyclothon.

Samkvæmt tilkynningu frá keppninni hefur Huebler tekið þátt í fjölda þrekíþróttakeppa, til dæmis The Yukon River Quest þar sem farnar eru 444 mílur á kanó og Fireweek 400 Ultracycling Race. Eftir að hún kláraði Fireweek áskorunina var hún í leit að nýrri hjólaáskorun sem hún gæti tekið þátt í þegar myndina The Secret Life of Walter Mitty og sem hún féll fyrir íslenskri náttúru.

Samkvæmt liðsfélögum hennar hefur hún talað um að keppa á Íslandi í að minnsta kosti þrjú ár. Terri nálgast á þessari stundu Mývatn og virðist ætla að takast ætlunarverk sitt, en hún segir kulda og mótvind ekki vandamál.

Hægt er að fylgjast með staðsetningu keppenda í beinni hér. 

Samkvæmt liðsfélögum hennar hefur Huebler talað um að keppa á …
Samkvæmt liðsfélögum hennar hefur Huebler talað um að keppa á Íslandi í að minnsta kosti þrjú ár. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert