Braut gegn fyrrum stjúpdóttur

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fyrrum stjúpdóttur sinni. Hann var dæmdur til að greiða henni 1,8 milljónir króna í miskabætur og þóknun skipaðs verjanda síns upp á tæpar 1,7 milljónir króna.

Brotaþoli hafði krafist fjögurra milljóna króna í miskabætur.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa 15. desember 2017 á heimili sínu nýtt sér yfirburði sína gagnvart henni. Hann var ákærður fyrir að hafa klórað og/eða strokið henni á baki og  bringu  innanklæða, á innanverðum lærum og aftanverðum lærum allt niður á kálfa  utanklæða, fór með hendi undir buxur hennar  og  klóraði og/eða strauk rass hennar og  sett  fingur inn í endaþarm hennar,  þannig að fingur hans og nærbuxur hennar fóru inn í  endaþarminn. Hann strauk með fingri  yfir endaþarm hennar, kyssti hana blautum kossum á enni, kinn og á læri, og lá síðan þétt upp að henni svo hún fann fyrir kynfærum hans við rassinn.

Barnavernd Reykjavíkur sendi erindi til lögreglu 20. desember 2017 þar sem óskað var eftir rannsókn á því hvort maðurinn hefði brotið kynferðislega á stúlkunni. Fyrir liggur að hann var sambýlismaður móður hennar um sjö  ára  skeið, en  leiðir þeirra skildu. Í kjölfar bréfsins var skýrsla tekin af brotaþola í Barnahúsi, fyrst 28. desember 2017 en síðan aftur 24. janúar 2018

Í fyrri skýrslutöku brotaþola í Barnahúsi lýsti hún því að eftir að móðir hennar og ákærði  hefðu skilið að skiptum þá hefði ákærði farið að koma skringilega fram við sig. Þetta hefði gerst í svokölluðum pabbahelgum. Ákærði hefði þá talað við hana eins og hún væri fullorðin. Nánar tiltekið hefði hann komið fram við hana eins og hún væri kærastan hans. Hann  hefði verið að kyssa hana blautum kossum.

Ákærði lagði áherslu á það í málatilbúnaði sínum að hann hefði gengist undir skurðaðgerð tveimur dögum fyrir meint brot sitt. Ekki væri því sennilegt eða jafnvel mögulegt að hann hefði framið það brot sem honum er gefið að sök í málinu.

Að mati dómsins verður ekki fram hjá því litið að ákærði gat að eigin sögn keyrt bifreið og staðið í eldhúsi og eldað fyrir börnin, þ.e. stúlkuna og hálfbróður hennar, umræddan dag. Þá útilokar framburður þess skurðlæknis, sem framkvæmdi aðgerðina, engan veginn að  ákærði hefði getað framið það brot sem honum er gefið að sök í málinu.

Fram kemur í dóminum að frásögn brotaþola í málinu hafi verið talin trúverðug og að ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Fallast verði á það með ákæruvaldinu að ákærði hafi nýtt sér yfirburði sína gagnvart stúlkunni og traust hennar og trúnað til hans, sbr. fyrrgreind tengsl þeirra. Þannig beitti ákærði brotaþola ólögmætri nauðung.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert