Framlög til UNICEF aldrei meiri

„Þessi aukning gerir UNICEF kleift að ná til enn fleiri …
„Þessi aukning gerir UNICEF kleift að ná til enn fleiri barna um allan heim.“ Ljósmynd/UNICEF á Íslandi

Framlög íslenska ríkisins til UNICEF á Íslandi jókst um 160% á milli áranna 2017 og 2018 og árið 2018 gaf Ísland, ríki og landsnefnd næsthæstu framlög til UNICEF alþjóðlega ef miðað er við höfðatölu og var í öðru sæti á eftir Noregi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá UNICEF á Íslandi, en þar segir að vöxtur félagsins á Íslandi á milli ára hafi verið 10,2%, en framlög ríkisins, almennings og fyrirtækja til baráttu UNICEF hafa aldrei verið meiri. 

„Þetta er alveg frábær árangur og við erum almenningi, fyrirtækjum og stjórnvöldum innilega þakklát fyrir þennan mikilvæga stuðning. Það er auðvitað mjög gleðilegt að sjá þessi auknu framlög frá ríkinu til baráttu UNICEF alþjóðlega, sérstaklega þegar við berum okkur saman við þjóðir sem gefa mun hærri prósentu af vergri þjóðarframleiðslu til þróunarmála en Ísland. Þessi aukning gerir UNICEF kleift að ná til enn fleiri barna um allan heim,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Ársfundur UNICEF á Íslandi var haldinn í Safnahúsinu við Hverfisgötu í morgun þar sem Bergsteinn kynnti helstu niðurstöður ársins 2018. Söfnunarfé var rúmar 730 milljónir króna en 81% þess kom frá heimsforeldrum. Metsala var á Sönnum gjöfum fyrir jólin, en landsmenn keyptu hjálpargögn á borð við bóluefni, teppi, hlý föt og vatnsdælur fyrir rúmar 30 milljónir.

Þá tók Kjartan Örn Ólafsson við sem nýr stjórnarformaður UNICEF á Íslandi á ársfundinum, en Kjartan hefur setið í stjórn UNICEF á Íslandi frá 2016.

Nýja stjórn UNICEF á Íslandi sem tók við í dag …
Nýja stjórn UNICEF á Íslandi sem tók við í dag skipa: Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður, Guðrún Hálfdánardóttir, varaformaður, Erna Kristín Blöndal, Guðrún Nordal, Svafa Grönfeldt, Lilja Hrund Ava Lúðvíksdóttir og Jökull Ingi Þorvaldsson, fulltrúar ungmennaráðs, Sigríður Thorlacius og Styrmir Gunnarsson. Ljósmynd/UNICEF á Íslandi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert