Loksins frí hjá ríkissáttasemjara

Elísabet S. Ólafsdóttir skrifstofustjóri hjá ríkissáttasemjara segir sumarfríið kærkomið og …
Elísabet S. Ólafsdóttir skrifstofustjóri hjá ríkissáttasemjara segir sumarfríið kærkomið og tímabært. Hér sýslar hún með vöfflur árið 2016 en eftir lífskjarasamningana nú í vor vakti það athygli manna að ekki voru reiddar fram vöfflur þegar samdist. mbl.is/Árni Sæberg

Allir starfsmenn hjá embætti ríkissáttasemjara fara í sumarfrí á föstudaginn. Að baki er viðburðaríkt starfsár, þar sem efst á baugi voru vitaskuld lífskjarasamningarnir sem undirritaðir voru í apríl, eftir langt og strangt samningaferli. Stór meirihluti af kjarasamningum á almennum markaði losnaði um áramótin og svo einnig í lok mars.

Nú fá starfsmenn á skrifstofunni og nefndarmenn í samninganefndunum sumarfrí frá þessum störfum í fimm vikur, sem hefst á föstudaginn. Sáttasemjari tekur aftur til starfa í ágúst. Starfsmenn eru fegnir því að komast nú í alvöru sumarfrí, því allt of oft er raunin önnur, að sögn Elísabetar S. Ólafsdóttur skrifstofustjóra, sem vísar í nærtækasta dæmið: sumarfríið í fyrra sem var ekki nema ein og hálf vika.

Þá stóð kjaradeila ljósmæðra til 26. júlí og svo var frí rétt fram í ágúst.

Ríkissáttasemjari er til húsa í Borgartúni 21 í Reykjavík. Þar …
Ríkissáttasemjari er til húsa í Borgartúni 21 í Reykjavík. Þar verður tómt hús í júlí. Margir hafa þar fundaraðstöðu, eins og BHM og BSRB, jafnvel þó þeir hafi ekki vísað deilu sinni við ríkið til sáttasemjara. Gera má ráð fyrir að þessir hópar geri hlé á fundum sínum á meðan húsnæðið er lokað, nema þeir taki upp á að funda annars staðar. mbl.is/Golli

Nú er öldin önnur og unnt var að fresta formlega þeim málum sem eru á borði sáttasemjara. „Samninganefndarfólk sem hefur verið hérna vikum og mánuðum saman þarf að komast í frí og svo starfsfólkið líka. Það er allt sem réttlætir þetta,“ segir Elísabet við mbl.is, glöð í bragði.

Á morgun fundar félag flugumferðarstjóra við Isavia og Samtök atvinnulífsins en á þeim bæ á eftir að semja og ekki liggur fyrir hvort unnt verði að gera það fyrir frí. Á föstudaginn á stéttarfélag blaðamanna síðan fund hjá sáttasemjara en að öðru leyti er ekkert á dagskrá heldur almennur frágangur á skrifstofunni.

„Það eru þessir fundir í vikunni en það eru allir mjög meðvitaðir um að ekki verði fundað hér í júlí,“ segir Elísabet.

„Miðað við stórt kjarasamningaár hefur þetta verið ágætt. Þetta tekur alltaf sinn tíma. Lífskjarasamningur var stórt skref og svo komu hinir á eftir. Auðvitað hefði maður vonast til þess að fleiri hefðu samið fyrir sumarfrí en svona er þetta og við vinnum út frá því. Verkefnin fara ekkert frá okkur,“ segir Elísabet, þó nú sé komið að smá hléi.

Í gær fundaði Flugfreyjufélag Íslands vegna Air Iceland Connect og var það fyrsti fundurinn síðan deilu þeirri var vísað til sáttasemjara. Þar voru gögn lögð fram en annars var tíðindalaust. Sömuleiðis fundaði félagið vegna Iceland Air í dag og það sama var uppi á teningnum þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert