„Óheppilegt að þetta hafi gerst“

Fyrsta rannsóknin á því hvort Íslendingarnir væru með Chikungunya veiru …
Fyrsta rannsóknin á því hvort Íslendingarnir væru með Chikungunya veiru reyndist ekki rétt. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er mjög óheppilegt að þetta hafi gerst. Þetta hefur valdið óþægindum víða, hjá einstaklingunum sem fengu þessa fölsku greiningu og líka erlendis. Við hörmum það,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir um Íslendinga sem taldir voru sýktir af Chikungunya-veiru en reyndust svo ekki með sýkinguna. 

Þórólfur bendir á að allar rannsóknir séu ekki 100% en þær eru það hins vegar í yfir 99% tilvika. Allar rannsóknir geta verið falsk neikvæðar eða falsk jákvæðar. Rannsóknarniðurstaða getur sýnt að einstaklingur sé ekki með ákveðna sýkingu þó hann sé með hana og öfugt. „Þetta getur alltaf gerst en er sem betur fer fátítt,“ segir Þórólfur. 

Það sem gerðist í þessu tilfelli var sambland af nokkrum þáttum eins og mannlegum mistökum og tæknifeilum í rannsókninni. Rannsóknarstofan hér á landi er búin að fara í gegnum sína ferla og lagfæra það sem fór úrskeiðis, að sögn Þórólfs. Þegar sýnin voru rannsökuð bæði hér á landi og einnig erlendis kom í ljós að ekki var um Chikungunya-veiru að ræða. 

Fréttin komst upphaflega í hámæli á Spáni þar sem greint var frá því að Chikungunya-veiran hefði í fyrsta skipti greinst þar í landi á meðal Íslendinga sem dvöldust á Alicante. Íslensk heilbrigðisyfirvöld höfðu samband við spænsk yfirvöld og greindu þeim frá stöðunni. „Heilbrigðisyfirvöld á Spáni greindu frá þessu áður en þetta var staðfest almennilega. Það þarf að passa að fara ekki of fljótt með fréttir í fjölmiðla og gera þetta að fári áður en menn eru vissir um hver raunveruleikinn er. Þetta er lærdómurinn hjá okkur í þessu,“ segir Þórólfur.     

Þegar fréttir bárust frá Spáni til Íslands að Chikungunya-veira hefði greinst í fyrsta skipti þar á landi í Íslendingum var leitað eftir staðfestingu þess efnis til sóttvarnarlæknis. Það fengust þær upplýsingar að þetta hefði komið upp en það ætti eftir að fá staðfestingu á því með frekari rannsóknum. „Þannig fór þetta á flug. Þetta getur alltaf gerst því miður. Ekkert við því að gera nema að reyna að bæta sig og laga gloppur í kerfinu,” segir hann. 

Þórólfur tekur fram að af þessu verður lært sérstaklega þar sem grunur leikur á um nýjar greiningar. „Við þurfum að hugsa okkur um tvisvar hvort þetta sé örugglega rétt greining og niðurstaða og fá staðfestingu á því annars staðar á því að þetta sé rétt áður en farið er af stað,“ segir Þórólfur. 

mbl.is