„Sjálfsskaði var hans eini tilgangur“

Húsið við Kirkjuveg á Selfossi var æskuheimili mannsins sem ákærður …
Húsið við Kirkjuveg á Selfossi var æskuheimili mannsins sem ákærður er fyrir manndráp í málinu. mbl.is/Eggert

Óskar Sigurðsson, skipaður verjandi mannsins sem ákærður er fyrir að hafa orðið tveimur manneskjum að bana með því að kveikja í einbýlishúsi á Selfossi í lok október, sagði að ekkert væri vitað með vissu um hvað gerðist frá því að skjólstæðingur hans var að fikta með eld í þeim tilgangi að skaða sjálfan sig og þar til húsið varð alelda.

Hann krafðist þess aðallega að ákærði yrði sýknaður og sagði að ákæruvaldið hefði ekki fært sönnur á að skjólstæðingur sinn hefði kveikt í húsinu af yfirlögðu ráði. Þá væri vafi uppi í málinu sem bæri að túlka ákærða í vil. Hann sagði „hugleiðingar lögreglu“ um hvað hefði gerst inni í húsinu áður en það varð alelda vera órökstuddar.

„Ákærði gat með engu móti áttað sig á því að kveikja í þessum pappa með þessum hætti í því skyni að skaða sjálfan sig gæti haft þessar afleiðingar,“ sagði Óskar og rökstuddi það meðal annars með því að maðurinn hefði verið undir áhrifum áfengis og annarra vímuefna til lengri tíma.

Lögmaðurinn vísaði einnig til þeirrar hæðispersónuleikaröskunar sem sálfræðingar sögðu ákærða vera með fyrr í dag og einnig þess, sem kom fram í greindarprófi sem ákærði undirgekkst, að hann væri treggreindur eða með 78 í greindarvísitölu.

Sagði Óskar að þetta tvennt gerði það að verkum að ekki væri að öllu leyti hægt að taka því sem fram kom í máli mannsins við fyrstu skýrslutökur hjá lögreglu með þeim hætti sem ákæruvaldið byggði á í málinu.

Hann hefði ekki fyllilega áttað sig á því hvað gerst hefði og verið undir áhrifum af því að meðákærða í málinu hefði öskrað á hann fyrir utan húsið og sagt að hann væri morðingi.

Óskar sagði einnig að maðurinn hefði ekki hringt í Neyðarlínuna, eins og hann sannarlega gerði, ef að ásetningur hans hefði verið að verða þeim sem voru á efri hæðinni að bana.

„Sjálfsskaði var hans eini tilgangur með þessari háttsemi,“ sagði lögmaðurinn og vísaði einnig til þess að skjólstæðingur sinn hefði sýnt mikla eftirsjá í samtölum sínum við þá sálfræðinga sem rætt hafa við hann eftir að húsið, sem var æskuheimili mannsins, brann með þeim hörmulegu afleiðingum sem flestum eru kunnar.

mbl.is