Skiptir engu máli hvort þingmenn segi satt

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata. mbl.is/​Hari

„Þingmenn verða núna hræddari við að segja sannleikann um mögulega spillingu. Það er niðurstaðan,“ segir Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata og einn nefndarmanna í forsætisnefnd Alþingis. Forsætisnefnd hefur fallist á niðurstöðu siðanefndar þingsins þess efn­is að Þór­hild­ur Sunna Ævars­dótt­ir hafi brotið siðaregl­ur fyr­ir alþing­is­menn.

Niðurstaða siðanefndar, sem forsætisnefnd féllst á fyrir helgi, snýr að ummælum Þórhildar Sunnu um Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokksins. Um­mæl­in féllu í Silfr­inu og var Þór­hild­ur Sunna þar að ræða end­ur­greiðslur sem Ásmundur naut frá Alþingi á grund­velli skrán­inga í akst­urs­dag­bók hans.

Segir siðareglunum snúið á haus

„Ég vildi vísa málinu aftur til siðanefndar með kröfu um að siðanefndin tæki afstöðu til sannleiksgildis ummæla Þórhildar Sunnu,“ segir Jón Þór. Hann segir að með núverandi niðurstöðu sé það staðfest að um siðabrot sé að ræða þegar þingmenn tjái sig um mögulega sjálftöku annarra þingmanna.

„Siðareglunum er snúið á haus,“ segir Jón Þór og bætir við að reglurnar hafi ekki verið settar að frumkvæði þingmanna. „Við urðum að setja siðareglur vegna þess að við erum í alþjóðasamstarfi gegn spillingu; GRECO-samstarfinu. Reglurnar eru settar til að koma í veg fyrir að ráðamenn geti misfarið með almannavald og almannafé. Það er tilgangur reglnanna,“ segir Jón Þór.

Þingmenn eigi að hafa sig hæga

Hann segir skilaboðin sem verið sé að senda með þessari niðurstöðu séu skýr. „Það er verið að segja þingmönnum að hafa sig hæga. Ekki eigi að benda á mögulega spillingu því þá gæti viðkomandi lent í því að vera dæmdur fyrir að hafa brotið siðareglur,“ segir Jón Þór og bætir við að sannleiksgildi virðist litlu máli skipta: „Það skiptir engu máli hvort þú segir satt.“

Jón Þór segir samtryggingu stjórnmálamanna um sjálftöku styrkjast vegna niðurstöðunnar og að fólk geti lesið það sem það vill lesa úr niðurstöðunni. 

„Siðanefnd gefur sitt álit og forsætisnefnd festir það. Það verður að endurskoða þetta ferli en það er handónýtt. Upprunalega áttu stjórnmálamenn ekkert að vera með puttann í þessu. Ég sagði að það kæmi ekki til greina að stjórnmálamenn dæmdu í slíkum málum út af freistnivanda, frændhygli og öllu því,“ segir Jón Þór. Hann bendir á að meint brot Ásmundar hafi verið stöðvað áður en það var sent siðanefnd. 

„Ásmundur viðurkenndi samt sjálfur að skrifstofa Alþingis hafi sagt honum að fara á bílaleigubíl eftir 15 þúsund kílómetra akstur,“ segir Jón Þór en reglur kváðu á um að þingmenn gætu að hámarki fengið 15 þúsund kílómetra endurgreidda. Hann hafi hins vegar haldið áfram að keyra eigin bíl og senda inn kröfur um endurgreiðslu fyrir aksturskostnað upp í 48 þúsund kílómetra.

„Það vita allir að hann fór ekki eftir reglunum en málið var ekki sent til siðanefndar. Meiri hluti forsætisnefndar að frumkvæði Steingríms J. Sigfússonar stöðvaði það.“

mbl.is