Verið að svara kalli eftir auknum skýrleika

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir nýja stjórnendastefnu ríkisins vera svar við miklu ákalli eftir slíkri stefnu á síðustu árum. Stefn­unni er ætlað að vera liður í því að efla stjórn­un hjá rík­inu og vinna að betri þjón­ustu við sam­fé­lagið sem miðar að því að bæta lífs­kjör í land­inu. 

„Það hefur verið mikið ákall í mörg ár eftir því að ríkið setti stjórnendastefnu til þess að leggja traustari grunn að allri vinnu í stjórnkerfinu. Samtalið við forstöðumenn hefur meðal annars snúist um skort á samtali og skýrum skilaboðum frá stjórnvöldum um hvaða væntingar séu gerðar og hvaða kröfur, hvernig menn hugsi um framgang í starfi, launakjör og annað þess háttar,“ segir Bjarni.

Stjórnendastefnan heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneytið og er fyrsta heildstæða stefnan um starfsumhverfi forstöðumanna ríkisstofnana, ráðuneytisstjóra og annarra sem hafa stjórnun að meginstarfi hjá ríkinu. 

Þá fylgir stefnunni aðgerðaráætl­un til næstu þriggja ára, þar sem aðgerðir, ávinn­ing­ur og tíma­setn­ing­ar eru skil­greind­ar. Hefst framkvæmd áætlunarinnar í ág­úst með sam­ræm­ingu ráðning­ar­ferla, und­ir­bún­ingi stjórn­enda­sam­tala og er gert ráð fyr­ir því að þeirri vinnu verði lokið snemma á ár­inu 2020.

Tekur í mörgum tilfellum við af kjararáði

„Ég er mjög ánægður með það að þessari miklu vinnu sé lokið og að þessu virðist vera vel tekið. Það er síðan heilmikið verkefni að taka öll stjórnendastörf hjá ríkinu og flokka þau og koma upp með ákveðin viðmið um hvernig við ætlum að vega og meta hvert starf því það koma fjölmargir þættir þar inn í eins og umfang starfseminnar, álag og hversu mikillar sérfræðiþekkingar er krafist.

„Þegar upp var staðið settum við saman kerfi sem kallast á við þessa stjórnendastefnu og leggur grunninn að nýju launakerfi sem tekur við af kjararáðsákvörðunum í mörgum tilvikum,“ segir Bjarni. 

Bjarni segir langflestar umsagnir um stjórnendastefnuna inni á samráðsgáttinni vera jákvæðar og segir það ánægjulegt að vel sé tekið í þá miklu vinnu sem búi að baki stefnunni. Þá segir hann kostnað við gerð stefnunnar fyrst og fremst hafa falist í mannauðnum sem hafi unnið að henni innan stjórnkerfisins. 

Stjórnendastefna ríkisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert