Tveir minkar skotnir, tveir minkar eftir

Það getur reynst þrautin þyngri að finna minkinn þar sem …
Það getur reynst þrautin þyngri að finna minkinn þar sem hann á hægt með að smeygja sér inn og út um gjótur eftir þörfum. Tveir fundust þó í gær og voru skotnir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meindýraeyðir skaut tvo minka niðri við Ægisgarð á Granda í Reykjavík í gær. Það voru læða og hvolpur hennar. Hún átti hins vegar þrjá hvolpa, þannig að tveir minkar hafast enn við niðri við höfn.

Minkarnir hafa að líkindum verið á sveimi um þetta svæði síðan í vor en læðan er vön að gjóta í byrjun maí. Þessi gaut þremur hvolpum. Þegar hvolparnir svo stækka verður litla fjölskyldan meira áberandi því læðan þarf að leggja sig í líma við að afla fæðu fyrir afkvæmin.

Með það fyrir augum finnur hún allt mögulegt og það gera ungarnir smám saman sjálfir. Þeir hafa sést tína upp æðarunga á svæðinu en einnig sækja þeir sér fisk.

„Það er mjög gott ef maður nær fullorðna dýrinu,“ segir Guðmundur Björnsson, meindýraeyðir hjá Reykjavíkurborg. Hann fékk ábendingu í gær um hvar minkarnir voru niðurkomnir, fór á vettvang og náði tveimur, læðu og hvolpi. Eftir standa tveir hvolpar sem hann veit af.

Svo vill til að Fréttablaðið birti mynd af tveimur minkum í Reykjavíkurhöfn í prentútgáfu sinni í dag. Allt bendir til þess að þeir minkar sem þar sjást hafi einmitt verið þeir sem Guðmundur skaut síðar um daginn.

Myndin í Fréttablaðinu í dag vakti áhuga manna. Eins og …
Myndin í Fréttablaðinu í dag vakti áhuga manna. Eins og sjá má á henni er það stærra dýrið, læðan, sem liggur á steininum. Fullorðin verður hún alveg brún en hvolpurinn sem gægist upp úr sprungunni er gráleitari og aðeins um það bil hálfvaxinn. Systkini hans tvö eru enn í höfninni einhvers staðar. Skjáskot/Fréttablaðið

Guðmundur segir að margan myndi furða á því hvað er af mink í Reykjavík. Hann hefur sjálfur fundið um 90 minka í Reykjavík á þessu ári, þó að flestir þeirra hafi verið við Kjalarnes, við ár eða við eyjarnar.

„Að finna mink í höfninni er orðinn árviss viðburður,“ segir Guðmundur og segir tíðni slíka funda flökta, bara eins og dýrastofna er von og vísa. Ekki er þó loku fyrir það skotið að þeir séu að sækja í nýja flóru veitingastaða á Grandanum. „Bara eins og ferðamennirnir,“ segir Guðmundur glettinn.

Guðmundur fékk boð frá Faxaflóahöfnum um að hann hefði sést í gær en hann hefur þó á verið á höttunum eftir dýrunum um nokkra hríð núna. 

Almennt þykir betur fara á að eiga við dýrin að …
Almennt þykir betur fara á að eiga við dýrin að kvöldlagi enda getur fólki brugðið í brún við slíkt um hábjartan dag. Í gær var þetta þó gert að degi til og Guðmundur segir það ekki hafa valdið vandræðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert