Vaxtalækkun fagnaðarefni en ekki óvænt

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, fagnar vaxtalækkun.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, fagnar vaxtalækkun. mbl.is/​Hari

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að vaxtalækkun Seðlabankans, sem kynnt var nú í morgun, eigi ekki að koma á óvart. Helstu tíðindi væru þau að lækkunin hafi ekki verið meiri en raun bar vitni. Hann fagnar þó ákvörðuninni.

Peningastefnunefnd Seðlabankans kynnti í morgun að stýrivextir yrðu lækkaðir um 0,25 prósentustig. Þetta er önnur vaxtalækkunin í röð, en í maí voru þeir lækkaðir um 0,5 prósentustig. Stýrivextir eru nú 3,75% og hafa ekki verið lægri síðan 2012. Halldór Benjamín á von á frekari vaxtalækkun á komandi misserum, en næst verður tekin vaxtaákvörðun í lok ágúst.

Aðspurður segir Halldór Benjamín að allir hagvísar hafi gefið til kynna að vaxtalækkun væri í vændum en að nýundirskrifaðir lífskjarasamningar styðji við ákvörðunina.

Framundan sé samdráttur í íslensku efnahagslífi sem muni reyna á bæði heimili og fyrirtæki. Hagspár geri allar ráð fyrir að hagvöxtur í ár verði neikvæður og vísbendingar um að áfram verði slaki í hagkerfinu á því næsta. Því sé mikilvægt að Seðlabankinn og stjórnvöld leggi sitt af mörkum til að milda niðursveifluna.

Verðbólga hefur farið hjaðnandi og er nú 3,3%. Gefið sé að verðbólguvæntingar nálgist verðbólgumarkmið Seðlabankans upp á 2,5% og því sé óhætt að lækka vexti, þó sú ákvörðun ein og sér sé jafnan talin ýta undir verðbólgu.

mbl.is